Bæjarráð Sandgerðis lýsir yfir óánægju með skerðingu strandveiðikvóta
Bæjarráð Sandgerðisbæjar lýsir yfir óánægju sinni með skerðingu á strandveiðikvóta um 200 tonn á svæði D í ályktun sem samþykkt var á fundi ráðsins í gær. Ályktunin verður send sjávarútvegráðherra og hann hvattur til að breyta úthlutun en kvótinn var aukinn á öðrum stöðum á landinu á sama tíma og hann var skertur á svæði D sem nær frá Borgarbyggð að Hornafirði.
Ályktunin er eftirfarandi:
Bæjarráð Sandgerðisbæjar lýsir yfir óánægju með tilfærslu úthlutunar strandveiðikvóta um 200 tonn af svæði D sem nær frá Borgarbyggð í vestri að Hornafirði til annarra svæða á landinu. Það sætir undrun að þetta skuli gert á sama tíma og heildarkvótinn er aukinn um 400 tonn. Bæjarráð fer þess eindregið á leit við sjávarútvegsráðherra að hann breyti ákvörðun sinni og leiðrétti þá tilfærslu sem gerð var og skipti viðbótarúthlutun þessa árs milli svæða í sömu hlutföllum og verið hefur.