Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Bæjarráð Grindavíkur tekur undir athugasemdir samráðshóps
Miðvikudagur 4. október 2017 kl. 12:20

Bæjarráð Grindavíkur tekur undir athugasemdir samráðshóps

- bæta þarf Grindavíkurveg

Bæjarráð Grindavíkur tekur undir athugasemdir samráðshóps um bættan Grindavíkurveg, þetta kemur fram í fundargerð bæjarráðs. Þar kemur einnig fram að ekki sé nóg að horfa eingöngu til umferðarþunga þegar kemur að því að forgangsraða umbótum vega. Slysatíðni Grindavíkurvegar er gríðarleg, þrátt fyrir að það sé minni umferðarþungi á honum en öðrum vegum. Vegurinn er auk þess með mjög varasama kafla þar sem auðveldlega myndast hálka án fyrirvara yfir vetrartímann.

Í fundargerðinni kemur einnig fram að Reykjanesið sé orðið mjög stórt atvinnusvæði sem fari ört vaxandi og þar er meðal annars Flugstöð Leifs Eiríkssonar nefnd ásamt Bláa Lóninu. Um Grindavíkurveg fara einnig miklir þungaflutningar, meðal annars flutningabílar með sjávarafurðir og hins vegar miklir fólksflutningar með rútum sem leið eiga í Bláa Lónið.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Mikið af ungu fólki sækir skóla í Reykjanesbæ og til höfuðborgarinnar og einnig hefur umferð erlendra ferðamanna aukist á veginum. Fram kemur í fundargerðinni að umferðin á veginum sé því bæði fjölbreytt og flókin.

Bæjarráð tekur auk þess undir hugmyndir Samráðshópsins um að hefja strax undirbúning samkvæmt tillögu 2 frá Vegagerðinni. Hafist verði handa við hönnun og skipulag svo það verði klárt þegar vegurinn fer inn á Samgönguáætlun. Það er mat bæjarráðs Grindavíkur að m.v. fjölgun umferðar á veginum þoli framkvæmdin enga bið. Þá tekur bæjarráð undir með hópnum, um að framkvæmdum á 2 + 1 vegi með aðskildum akstursstefnum, sem kostar m.v. útreikning Vegagerðarinnar, 1400 milljónir, verði áfangaskipt og jafnvel tekin í tveimur eða þremur áföngum. Hættulegustu kaflarnir verði teknir fyrst.