Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Bæjarpólitíkin í Grindavík: Sigmar, Hörður og Björn hætta - Petrína hugsar sinn gang
Miðvikudagur 9. desember 2009 kl. 11:34

Bæjarpólitíkin í Grindavík: Sigmar, Hörður og Björn hætta - Petrína hugsar sinn gang


Ljóst er að talsverðar breytingar verða á skipan efstu manna á framboðslistum stjórnmálaflokkanna í Grindavík í sveitarstjórnarkosningunum í vor. Sigmar Eðvarðsson, oddviti Sjálfstæðismanna, ætlar að draga sig í hlé og sömuleiðis Hörður Guðbrandsson, bæjarfulltrúi Samfylkingar og forseti bæjarstjórnar. Björn Haraldsson, bæjarfulltrúi Vinstri Grænna, orðar það svo að hann hafi ekki „gengið með bæjarfulltrúa í maganum“ og muni ekki gera það í næstu kosningum. Petrína Baldursdóttir, oddviti Framsóknar, er að hugsa sinn gang.

Þetta kom fram á svokölluðum bryggjufundi í morgun þar sem bæjarfulltrúar sátu fyrir svörum á kaffistofu Bryggjunnar við höfnina. Aðalumræðuefnið voru hin tíðu meirihlutaskipti í bæjarstjórn Grindavíkur en samstarf þessara aðila hefur eins og kunnugt er gengið afar erfiðlega og fjórði meirihlutinn á þessu kjörtímabili var myndaður um liðna helgi. Á fundinum voru bæjarfulltrúarnir spurðir að því hvort þeir hygðust gefa kost á sér áfram í „leikhúsi fáranleikans,“ eins og einn fundarmanna og fyrrverandi bæjarfulltrúi orðaði það.

Þar með er ljóst að verulegra breytinga er að vænta eftir næstu kosningar, ekki síst í skipan þriggja efstu manna á lista Samfylkingarinnar. Hörður Guðbrandsson mun ekki gefa kost á sér, sem fyrr segir. Jóna Kristín Þorvaldsdóttir er horfin út stól bæjarstjóra og  hefur tekið við stöðu sóknarprests fyrir austan.  Garðar Páll Vignisson sagði skilið við Samfylkinguna og gekk til liðs við Vinstri Græna, sem voru ekki í framboði í síðustu kosningum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

VFmyndir/elg - Frá fundinum í Grindavík í morgun.