Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Bæjarmálafélag Frjálslyndra stofnað í Reykjanesbæ
Föstudagur 18. febrúar 2005 kl. 11:10

Bæjarmálafélag Frjálslyndra stofnað í Reykjanesbæ

Bæjarmálafélag Frjálslynda flokksins í Reykjanesbæ var stofnað í gærkvöldi.

Síðustu vikur hefur nefnd unnið að undirbúningi fyrir stofnun þessa félags og mættu um 30 manns á stofnfundinn sem haldinn var í húsi Verkalýðs- og Sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis. Gengið var frá samþykkt laga hins nýja félags og síðan kosin stjórn. Hana skipa tvær ungar konur og þrír karlar.

Stjórnina skipa:

Jóhanna Guðmundsdóttir formaður. Jóhanna er rétt rúmlega þrítug að aldri. Fædd og uppalin í Vestmannaeyjum, en hefur búið í Reykjanesbæ í rúman áratug með eiginmanni sínum og þremur börnum. Jóhanna er með verslunarpróf, hún er menntaður iðnrekstrarfræðingur frá Tækniháskóla Íslands, auk þess að hafa menntun á sviði fasteignaviðskipta. Hún starfar sem fulltrúi hjá Varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli.

Kristinn Guðmundsson er varaformaður. Hann hefur um árabil rekið fiskverkun í Reykjanesbæ og hefur mikla reynslu af sjávarútvegsmálum.

Baldvin Nielsen bifreiðastjóri var kosinn gjaldkeri, og Sæmundur Einarsson rafvirki og útgerðarmaður er ritari félagsins. Meðstjórnandi er Lilja Björk Andrésdóttir, og Birgir Stefánsson og Böðvar Gunnarsson varamenn í stjórn.
Frjálslyndi flokkurinn stefnir ótrauður á þátttöku í næstu sveitarstjórnarkosningum víða um land, en þær verða haldnar vorið 2006. Stofnun bæjarmálafélags í Reykjanesbæ er liður í undirbúningi fyrir framboð þar, og fleiri slík félög verða stofnuð í ýmsum sveitarfélögum umhverfis landið á næstu mánuðum.

Texti af vefsíðu Frjálslynda flokksins

VF-myndir/Þorgils Jónsson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024