Bæjarlistamanni boðið til Piteå
– í tilefni sænska meistaramótsins í vetraríþróttum
Vinabær Grindavíkur í Svíþjóð, Piteå, ákvað í tilefni sænska meistaramótsins í vetraríþróttum sem þar verður haldið dagana 25. - 31. janúar að vera með menningartengda dagskrá alla vikuna í fyrsta sinn, En mästerlig folkfest.
Af því tilefni buðu þeir Halldóri Lárussyni, bæjarlistamanni Grindavíkur og skólastjóra Tónlistarskóla Sandgerðis, í heimsókn og að halda þar nokkra tónleika. Halldór fer ásamt félögum sínum þeim Halli Ingólfssyni tónskáldi, trommu- og gítarleikara, Herði Inga Stefánssyni bassaleikara og Jóhanni Ingvasyni píanóleikara. Munu þeir flytja efni eftir Hall Ingólfsson af plötu hans Öræfi á sex tónleikum dagana, 27., 28. og 29. janúar.
Þess má geta þess að í júlí síðastliðnum gerði Halldór listamannssamning við japanska trommuframleiðandann TAMA sem er eitt stærsta og virtasta fyrirtæki heims í trommusmíði. Halldór ásamt Pétri Östlund eru einu íslensku listamennirnir á samning hjá Tama. Fyrir er Halldór með listamannasamninga við þýska málmgjallaframleiðandann MEINL og sænska trommukjuðaframleiðandann Wincent.