Bæjarfulltrúi ósáttur vegna frávísunartillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu
- Forseti bæjarstjórnar talar um brot á vinnureglum
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar vísaði frá tillögu Eysteins Eyjólfssonar, bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar, á fundi í gær en í tillögunni er skorað á ríkisstjórnina og Alþingi að draga til baka þingsályktunartillögu utanríkisráðherra og standa þess í stað við loforð um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna við ESB.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks samþykktu frávísunartillögu að lokinni framsögu Eysteins. Fulltrúi Framsóknar í bæjarstjórninni sat hjá við atkvæðagreiðslu um frávísunartillöguna.
Að lokinni frávísun málsins lagði Eysteinn fram eftirfarandi bókun fyrir hönd minnihlutans:
„Í greinargerð sem unnin var fyrir Samband íslenskra sveitarfélaga um áhrif Evrópusambandsaðildar á íslenska sveitarstjórnarstigið kemur fram að ljóst er að áhrif Evrópusambandsaðildar á íslensk sveitarfélög yrðu umtalsverð. Þó sé ekki hægt að segja nákvæmlega fyrir um heildarávinning sveitarfélaga fyrr en niðurstöður aðildarviðræðna liggja fyrir. Þess vegna m.a. er mikilvægt fyrir sveitarfélögin að aðildarviðræðum sé ekki slitið.
Þá er spurningin um aðild Íslands að Evrópusambandinu mikilvægari en svo að einstakir stjórnmálaflokkar eða ríkisstjórnir eigi að ráða úrslitum. Um er að ræða svo stórt hagsmunamál fyrir sveitarfélögin í landinu og íbúa þeirra að mikilvægt er að þjóðinnni sé tryggð aðkoma að ákvörðun um framhald þess. Þjóðin á að fá að greiða atkvæði um málið – eins og henni var lofað – annað er ólýðræðislegt.“
Eysteinn greinir frá afgreiðslu málsins á Facebook síðu sinni þar sem hann andmælir bókun forseta bæjarstjórnar með því að benda á að 25% af Evrópulöggjöf snerti sveitarfélög beint og sé tekin upp í gegnum aðild Íslands að EES. Eysteinn bendir einnig á að í gegnum árin hafi bæjarstjórn Reykjanesbæjar ályktað um fjölmörg málefni sem ekki heyra beint undir bæjarstjórn en skipta bæjarbúa máli, svo sem málefni Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, Landhelgisgæslunnar, atvinnumál og fleira.
Böðvar svarar færslunni með því að segja að Bæjarstjórn Reykjanesbæjar fjalli um málefni sem sveitarfélaginu séu falin en Alþingi um málefni lands og þjóðar. „Það er alrangt hjá Eysteini að bæjarstjórn fjalli um mörg mál sem eru á vettvangi Alþingis en vissulega hefur bæjarstjórn ályktað um t.d. Heilbrigðisstofnun Suðurnesja eða flutning gæslunnar hingað til Suðurnesja. Það má líka benda á að slíkar ályktanir hafa undantekningarlaust verið ræddar fyrirfram af hálfu bæjarfulltrúa og verið fullur stuðningur við þær hvar sem í flokki menn hafa staðið. Utanríkismál almennt hafa ekki fengið umfjöllun í bæjarstjórn enda ekki einhugur um slík mál af hálfu bæjarfulltrúa. Um meðferð þessara mála hefur verið samstaða meðal bæjarfulltrúa í Reykjanesbæ fram til þessa. Ályktun bæjarfulltrúa Samfylkingarinar í kvöld er einfaldlega brot á þeirri vinnureglu sem viðhöfð hefur verið um langt skeið. Þrátt fyrir einlægan áhuga Samfylkingarinnar á þessu máli og vilja til að segja skoðun sína á málefnum ESB verður vinnulagi Bæjarstjórnar Reykjanesbæjar ekki breytt vegna þessa, a.m.k. ekki á minni vakt,“ segir Böðvar.