Bæjarfulltrúi meirihlutans greiddi atkvæði gegn framkvæmdaleyfi
Það vekur athygli að Særún Rósa Ástþórsdóttir, bæjarfulltrúi meirihlutans í Garði, greiddi atkvæði gegn því að framkvæmdaleyfi yrði veitt til Helguvíkurálvers, þegar málið var til afgreiðslu bæjarstjórnar í gær. Hún segir það óábyrgt af sveitarfélaginu að veita byggingaleyfi til Norðuráls í ljósa þeirra upplýsinga sem liggja fyrir. Hinir bæjarfulltrúarnir sex greiddu atkvæði með framkvæmdaleyfinu.
Særún gerði sérstaka grein fyrir atkvæði sínu sem er svohljóðandi í fundargerð:
Í umsókn Norðuráls um byggingarleyfi fyrir álver í Helguvík gerir fyrirtækið grein fyrir stöðu þeirra atriða sem nefnd eru í áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum. Í greinargerð Norðuráls kemur fram að vinnu miði vel áfram og að niðurstöður séu væntanlegar. Það breytir því þó ekki að þessar niðurstöður liggja ekki fyrir í dag og óvíst er hvenær þær munu liggja fyrir nákvæmlega.
Ekki hefur verið fjallað um virkjunarkosti samkvæmt lögum, ekki hefur verið greint frá niðurstöðum varðandi línulagnir og Norðuráli Helguvík sf. hefur ekki verið úthlutað losunarheimildum, en þetta eru þau atriði sem Skipulagsstofnun telur að sveitarfélögin eigi að hafa í huga við leyfisveitingar. Auk þess er ekki komin niðurstaða vegna kæru Landverndar til Umhverfisráðuneytisins á ákvörðun Skipulagsstofnunar um að verkefnið fari ekki í heildstætt umhverfismat.
Í ljósi þessara upplýsinga tel ég óábyrgt af sveitarfélaginu Garði að veita byggingarleyfi til Norðuráls á þessari stundu.
Særún Rósa Ástþórsdóttir.