Bæjarfulltrúar í Grindavík fá ljósmyndabók um Reykjanesskaga
Náttúruljósmyndarinn Ellert Grétarsson afhenti í gær Róberti Ragnarssyni, bæjarstjóra Grindavíkur, ljósmyndabókina „Reykjanesskagi - ruslatunna Rammaáætlunar“. Í bókinni eru ljósmyndir frá þeim svæðum á Reykjanesskaga sem líklegt má telja að verði virkjuð, samkvæmt þingsályktunartillögu að Rammaáætlun sem nú liggur fyrir Alþingi. Allir bæjarfulltrúar Grindavíkurbæjar fá bókina í hendur.
Fjöldi ljósmynda af náttúruperlum Reykjanesskagans prýðir bókina en Ellert, sem er stjórnarmaður í Náttúruverndarsamtökum Suðvesturlands, hefur tekið myndirnar á gönguferðum sínum um skaann síðastliðin sex ár. Bókin er gefin út af þrettán náttúruverndarsamtökum sem skiluðu sameiginlegri umsögn um drög að þingsályktunartillögu um vernd og orkunýtingu landsvæða í nóvember á liðnu ári.
Náttúruverndarsamtökin þrettán gáfu öllum þingmönnum á Alþingi bókina sl. miðvikudag og tók forseti Alþingis formlega við bókunum fyrir hönd þingsins.
Bókin kom út í vefútgáfu fyrir nokkru og hefur verið aðgengileg almenningi á netinu. Viðbrögð við henni hafa verið afar góð en um fimm þúsund manns hafa nú skoðað hana . Í framhaldi af útgáfunni efndu Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands til gönguferða um Sveifluháls og Eldvörp og mættu um eitt hundrað þátttakendur í hvora ferð sem voru undir leiðsögn Ellerts og Ástu Þorleifsdóttur, jarðfræðings.
Hægt er að skoða vefútgáfu bókarinnar með því að smella hér!
Náttúruverndarsamtökin þrettán gáfu öllum þingmönnum á Alþingi bókina sl. miðvikudag og tók forseti Alþingis formlega við bókunum fyrir hönd þingsins.