Bæjarbúar láti vita ef lýsingu vantar
Reykjanesbær tekur yfir viðhald og eftirlit með ljósastaurum.
„Frá og með 1. mars sl. sér Reykjanesbær sjálfur um eftirlit á götulýsingu í bænum og við ætlum að fá íbúa bæjarins í lið með okkur með að láta vita af staurum sem eru ljóslausir. Í þessu felst umtalsverð hagræðing,“ segir Guðlaugur H. Sigurjónsson sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs. Um sé að ræða tilraunaverkefni því Reykjanesbær sé venjulega með samning við HS veitur um slíkt eftirlit og viðhald á staurum.
„Þegar við sendum viðgerðarflokka af stað þá geta þeir kannski tekið heilan dag í að laga staura í stað þess að kalla út menn og bíl fyrr einn staur. Við munum stýra þessu miklu betur á okkar vegum. Með þessu minnkum við viðhaldsgjald töluvert og greiðum einungis grunngjald. Á móti tökum við yfir eftirlitið, það er svona meginþemað í þessari aðferð. Ef við fáum ábendingu um að lýsing sé farin af staur, þá saknar einhver lýsingarinnar og við förum í málið. Ef enginn lætur vita þá er lýsingarinnar ekki saknað. Þetta er einfalt,“ segir Guðlaugur.
Áfram slökkt á staurum yfir hásumarið
Við þessa breytingu segir Guðlaugur að einhver töf geti orðið á að laga bilaða ljósastaura, nema metið sé að þeir standi við „varhugaverða staði“, gatnamót, gangbrautir o.s.frv. Þá fari staurarnir í flýtiafgreiðslu. Aðrir staurar verði teknir fyrir þegar kallað verði út í viðgerð. „Þetta verkefni verður í gangi út árið. Við munum áfram slökkva alfarið á staurunum yfir hásumarið eins og við höfum gert undanfarin sumur. Væntanlega munum við svo þurfa á aðstoð íbúa að halda til ad láta vita af biluðum staurum í haust, en gera má ráð fyrir þónokkrum tilkynningum þegar kveikt verður á staurunum aftur.“