Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Bað um árabát en fékk næstum þyrlu
Miðvikudagur 11. febrúar 2009 kl. 00:10

Bað um árabát en fékk næstum þyrlu

- Mikill viðbúnaður þegar útkall barst vegna kafara í vanda

„Ég var á leið í land þegar mér var það ljóst að straumar voru orðnir mjög miklir frá landi í stað þess að beinast að landi eins og átti að vera á þessum tíma sólarhringsins samkvæmt flóðatöflu. Á þessum slóðum er oft erfitt að lesa í strauma og þeir geta verið óútreiknanlegur. Ég var með stóran og mikinn neðansjávar kvikmyndatökubúnað ásamt ljósum og sá búnaður virkar vegna stærðar sinnar nánast eins og segl,“ segir kafarinn sem björgunarsveitir sóttu í Garðsjóinn í kvöld í samtali við Víkurfréttir. Mikill viðbúnaður var vegna atviksins. Þrjár björgunarsveitir kallaðar út, lögregla, sjúkralið og tækjabílar slökkviliðs. Þá var þyrla Landhelgisgæslunnar einnig kölluð til, en aðstoð afturkölluð þegar ljóst var að kafarinn var heill á húfi
 
„Ég var að kafa á leið í land þegar ég lendi skyndilega í straumröst sem gerði það að verkum að það var nánast ekki hægt að komast neitt áfram í áttina að landi. Ég hef oft kafað þarna og átti ekki von á þessu þaðan að síður vegna þess að það var að flæða að og samkvæmt því hefði átt að vera straumur inn Faxaflóann og að landi. Þessi straumur var hinsvegar í þveröfuga átt. Ég fór upp á yfirborðið og eftir langa og vonlausa tilraun til að komast að landi kallaði ég til félaga minna sem þar voru og bað þá um að redda bát“.
 
Í samtali við vf.is sagði kafarinn að sér hafi dottið í hug að það þyrfti vart að fara langa leið til þess þarna við höfnina í Garði og án efa væri hægt að nálgast einhverja bátskænu sem hægt væri að sjósetja fljótlega ef þyrfti.
 
„Eftir smá stund kölluðu þeir að það væri að koma bátur. Mig rak mjög hratt frá landi en vitandi það að hægt væri að redda báti þá hagræddi ég mér eins og ég best gat í sjónum og lét fara vel um mig þótt aldan væri farin að stækka og hækka og á köflum að veltast yfir mig“.
 
Kafarinn segist hafa notið félagskapar fugla sem sveimuðu yfir honum. Hann segist hafa ákveðið að taka stefnuna í áttina að sandfjöru sem að er rétt norðan við höfnina handan skerja sem þar eru á milli.
 
„Ég ætlaði að freista þess að ná þangað ef áformin um bátinn myndu ekki skila árangri. Ég þurfti samt að gæta þess að lenda ekki í skerjunum sem þarna eru á milli. Það er ekki laust við að mér hafi verið brugðið þegar ég sá blá blikkandi ljós koma á miklum hraða niður að Gerðasbryggju“.
 
Kafarinn var þá kominn u.þ.b. 300 metrum frá þeim stað sem þetta óumbeðna ferðalag í straumröstinni hófst.
 
„Björgunarsveitir og aðrir þeir sem þarna komu að verki eiga miklar og góðar þakkir skildar en það er ekki laust við að mér hafi fundist of mikið fyrir mér haft. Ég vildi bara fá árabát,“ segir kafarinn brattur eftir ævintýri kvöldsins. Kafarinn bar sig vel við komuna í land, sagðist heill heilsu en var til öryggis fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til skoðunar. Þar var hann útskrifaður fljótt og örugglega, enda hafði hann verið vel búinn í köfuninni.


 
Ljósmyndir frá vettvangi í kvöld. Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024