Bachelor á Berginu?
Íslensk sjónvarpsþáttaröð, The Bachelor eða Leitin, piparsveinn Íslands, verður líklega tekin upp í Reykjanesbæ á næstu vikum. Heimildir Víkurfrétta benda til þess að framleiðslufyrirtæki sjónvarpsþáttaraðarinnar hafi tekið á leigu glæsilegt einbýlishús í Keflavík. Heimildir blaðsins segja að um sé að ræða tveggja hæða glæsihús á miklum útsýnisstað í Keflavík. Við Bakkaveg á Bergi stendur rúmlega 270 fermetra hús í amerískum stíl með tvöföldum bílskúr sem passar við lýsingar á því húsi sem verður sviðsmynd þáttanna.
Eignin er auglýst til sölu um þessar mundir á www.draumahus.is, þar sem fram kemur að um sé að ræða sjö herbergja hús og þar af 5 rúmgóð svefnherbergi, glæsilegt baðherbergi og stofa með arin. Þá er hjónaherbergi með svölum og mjög góðu útsýni. Þetta hús gæti því hentað vel til þáttagerðarinnar.
Það eru SkjárEinn og Sagafilm sem sameinast um að koma piparsveini Íslands í hnapphelduna. Framleiddir verða 10 þættir sem hver um sig verður klukkustundar langur. Fyrstu þættirnir verða sýndir um miðjan september, en fyrst verður piparsveinninn valinn og í framhaldinu leitin að kvenkostinum fyrir hann sýnd. Hvaða stúlka hreppir svo vænlegasta karlmann Íslands í jólagjöf? Það er spurningin og henni verður fyrst svarað í lokaþættinum um miðjan desember.
Ekki fengust upplýsingar hjá SkjáEinum um það hvort þáttaröðin verði tekin upp í Keflavík og ekki náðist í eigendur hússins við Bakkaveg á Bergi, hússins sem passar svo vel við lýsingar á því húsi sem notað verður sem sviðsmynd þáttanna um hinn íslenska Bachelor.