Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ávaxtakarfan á leið til Kína
Miðvikudagur 1. júní 2005 kl. 21:16

Ávaxtakarfan á leið til Kína

Barnasöngleiknum sem sýndur er um þessar mundir í Austurbæ, hefur verið boðið á alþjóðlega hátíð barnaleikrita í Sjanghæ. Boðið er tilkomið af heimsókn fulltrúa ÍsMedia sem voru með í för þegar forsetinn heimsótti Kína nú á dögunum.

Um er að ræða eina stærstu hátíð sinnar tegundar í heiminum með um 40 leikverk. Ekki er komið á hreint hvort leikritið verður sýnt á íslensku eða ensku en búið er að þýða verkið.

Kristlaug María Sigurðardóttir, höfundur Ávaxtakörfunnar ásamt Þorvaldi Bjarna, sagði boðið hafa komið sér töluvert á óvart. “Þetta var nokkuð óformlegur fundur og okkur var boðið að sækja um að komast að fyrir næsta ár. Við skildum eftir upplýsingar um verkið, myndbrot og tónlist og bjuggumst ekki við neinu en fengum svo hringinguna stuttu eftir heimkomuna”.

„Við náðum góðu sambandi við fólk í Kína og komum heim með tveggja mánaða samning við barnaleikhús í Peking. Ávaxtakarfan fer þangað á næsta ári og verða sýningar í fjölmörgum barnaleikhúsum í Kína. Leikfélagið er í eigu sjónvarpsstöðvar þar ytra og því er möguleiki á frekara samstarfi. En að okkur hafi verið boðið að sýna á þessari hátíð kom okkur verulega á óvart“ sagði Kristlaug María.

Uppsetningin verður með nákvæmlega sama sniði og hún er í Austurbæ í dag og með sömu leikurum og er leikhópurinn mjög spenntur yfir förinni.

Aðspurð hvort boðskapur Ávaxtakörfunnar héldist í jafn fjarlægum löndum og Kína sagði Kristbjörg María: „Boðskapurinn er alþjóðlegur og á vel heima í Kína en nú er mikið fjallað um lýðræði þar. Til dæmis um það var mikil umfjöllun um jafnan rétt kynjanna til menntunar meðan á okkar dvöl stóð.“

Ekki er langt að bíða næsta söngleiks en Kristbjörg María og Þorvaldur Bjarni eru að leggja lokahönd á neðansjávarsöngleik sem ber vinnuheitið Hafið, bláa hafið. Leikritið fjallar um karfastrákinn Klett og karfastelpuna Lukku sem fara í hetjuför um Reykjaneshrygginn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024