Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Mánudagur 4. mars 2002 kl. 23:08

Austurbraut í Keflavík malbikuð í sumar

Íbúi við eina af styttri götum Reykjanesbæjar spyr bæjaryfirvöld að því hvort malbikun og fegrun lengri götu gefi hugsanlega fleiri atkvæði en fegrun styttri götu og er þar að gagnrýna það að loforð um framkvæmdir við sína götu, Austurbraut, hafi hugsanlega verið svikin. Frá þessu var greint á vef Víkurfrétta í kjölfar umræðu á vefsvæði Reykjanesbæjar. Ellert Eiríksson bæjarstjóri hefur nú svarað bæjarbúanum:„Sæll Björn Albertsson
Vegna skrifa þinna á vef Reykjanesbæjar um Austurbraut vil ég koma eftirfarandi á framfæri. Sl. þrjú ár hafa íbúar við Hólabraut, Austurbraut, Sólvallagötu og Njarðargötu vakið réttilega athygli á ástandi gatna sinna. Hafa þeir jafnt komið í heimsókn til bæjarstjóra sem og sent skrifleg erindi. Þeim hefur ávallt verið tjáð að ofangreindar götur komi á framkvæmda áætlun 2002, þá til endurbyggingar eftir þörfum, svo og að göturnar verða malbikaðar og gangstéttar hellulagðar.
Á fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar 2002 er 18,9 milljónum króna úthlutað til framkvæmdanna. Til þess að taka af allan vafa og forðast misskilning ágæti Björn þá verður Austurbrautin endurbyggð og fullkláruð í sumar 2002. Það loforð var gefið fyrir nokkrum árum og við það er staðið. Þar sem þú vitnar í starfsáætlun umhverfis- og tæknisviðs vil ég biðja þig að fletta upp á bls. 12 og skoða liðinn 4.2.3. Endurbygging gatna. Aðrar hugrenningar sem fram koma í bréfinu tel ég best að þú geymir í eigin hugskoti.
Að lokum óska ég þér og þínum velfarnaðar í framtíðinni, og lýsi mig fúsan til skoðana skipta hvenær sem hentar.
Kveðja, Ellert Eiríksson Bæjarstjóri“.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024