Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Aukning fjárframlaga ríkisins til Suðurnesja fylgir ekki íbúaþróun
Föstudagur 26. október 2018 kl. 09:17

Aukning fjárframlaga ríkisins til Suðurnesja fylgir ekki íbúaþróun

Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum hefur skilað nefndasviði Alþingis umsögn við frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2019.
 
Í umsögninni segir að sveitarfélög á Suðurnesjum vilji vekja athygli fjárlaganefndar á því að um langt árabil hafa fjárframlög hins opinbera til stofnana og verkefna á svæðinu verið lægri en til sambærilegra verkefna og stofnana í öðrum landshlutum. 
 
„Fjölgun íbúa á Suðurnesjum frá 2010 er rúmlega 26,45% en til samanburðar hefur fjölgun á höfuðborgarsvæðinu verið 11,86% og enn minni annarsstaðar á landinu. Það sem veldur fulltrúum sveitarstjórna á Suðurnesjum núna sérstökum áhyggjum er að fólksfjölgun á svæðinu hefur verið langt um fram meðaltalsfjölgun á landinu öllu en aukning fjárframlaga ríkisins til stofnana og verkefna á svæðinu hefur á engan hátt fylgt þeirri þróun.
 
Í áætlanagerð ríkisins virðist ekki vera tekið nægjanlegt tillit til þeirrar óvenju miklu fólksfjölgunar sem orðið hefur á Suðurnesjum. Þá er ljóst að vegna umsvifa á svæðinu og lágs atvinnuleysis mun fjölgun íbúa á svæðinu halda áfram. Af þeim sökum þarf fjárlaganefnd að láta skoða sérstaklega fjárframlög ríkisins til opinberra stofnana og annarra mikilvægra verkefna á svæðinu til þess að íbúar búi við sömu þjónustu og íbúar annarra svæða landsins,“ segir í umsögninni sem Berglind Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri Sambands sveitarfélaga ritar undir.
 
Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum lét vinna fyrir sig úttekt á fjárlagafrumvarpinu sem leiðir í ljós að framlög ríkisins til verkefna á Suðurnesjum eru lægri en til sambærilegra verkefna í öðrum landshlutum. Úttektin fylgdi umsögn sveitarfélaganna til nefndasviðsins.
 
„Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum leggur mikla áherslu á þær forsendur sem eru að baki þeim áætlunum er varða fjárframlög til Suðurnesja verði teknar til endurskoðunar. Ljóst er að þessar forsendur taka ekki tillit til slíkrar fólksfjölgunar sem verið hefur á Suðurnesjum á undanförnum árum. Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum minnir á að í stefnumótandi byggðaáætlun fyrir 2018-2024 var sam þykkt að koma á fót samráðsteymi til að bregðast við þeim áskorunum sem blasa við sveitarfélögum sem takast á við þenslu á vaxtarsvæðum. Eitt af verkefnum þess teymis hlýtur að vera að tryggja að fjármunir ríkisstofnanna t.d. til heilbrigðismála séu í takt við mannfjölgun á svæðinu,“ segir orðrétt í umsögninni um frumvarp til fjárlaga.
 

Helstu þættir sem sveitarfélögin á Suðurnesjum segja að þurfi að skoða

1. Vægi fólksfjölgunar í reiknilíkönum ráðuneyta til opinberra stofnana og með hvaða hætti tekið er tillit til breyttrar samfélagsgerðar eins og fjölgunar erlendra ríkisborgara.
 
2. Fjárframlög til að ljúka við tvöföldun Reykjanesbrautar, frá Hafnarfirði að Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
 
3. Fjárframlög til Heilbrigðistofnunar Suðurnesja, heilsugæslu og til hjúkrunarrýma.
 
4. Fjárframlög til Miðstöðvar Símenntunar á Suðurnesjum.
 
5. Hvort nýta megi hluta af söluandvirði eigna Kadeco til innviðafjárfestinga á Suðurnesjum.
 
6. Treysta rekstrarforsendur almenningssamgangna á landi, þannig að tryggt sé að landshlutasamtök sveitarfélaga sitji ekki upp með uppsafnaðan rekstrarhalla í lok samningstíma.

 

HEFUR ÞÚ SÉÐ SUÐURNESJAMAGASÍN? NÝJASTI ÞÁTTURINN ER HÉR!

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024