Aukinn áhugi flugfélaga og meira líf á Keflavíkurflugvelli
Eftir að byrjað var að bjóða upp á skimun fyrir Covid 19 á Keflavíkurflugvelli þann 15. júní síðastliðinn hafa sjö flugfélög hafið flug til og frá landinu. Flogið er á 21 áfangastað í 15 löndum. Þessu til viðbótar bætast þrjú flugfélög við með fjóra nýja áfangastaði í júlí. Þetta kemur frá á vef Isavia.
Fréttir berast næstum daglega af fyrirætlunum ýmissa flugfélaga varðandi Íslandsferðir sem er í takt við væntingar í ljósi sérstöðu Íslands sem áfangastaðar og vonir eru bundnar við það að það mun fjölga enn frekar á komandi vikum á mánuðum á sama tíma og takmörkunum og ferðahindrunum fækkar.
„Við hjá Isavia fögnum því að sjá fleiri farþega og aukið líf á flugvellinum. Ef sóttvarnaaðgerð stjórnvalda heppnast vel og niðurstaðan verður sú að auðvelda fólki enn frekar að ferðast til Íslands þá lifnar vonandi fljótt enn frekar yfir Keflavíkurflugvelli,“ segir á síðunni.
Isavia hefur sett upp vefsíðu með upplýsingum um þau flugfélög sem fljúga um Keflavíkurflugvöll og þá áfangastaði sen flogið er til.
Þessi síða er uppfærð þegar nýjar upplýsingar berast og eru staðfestar.
SKIMUN Á FLUGVELLINUM
Á Keflavíkurflugvelli eru skimunarbásar fyrir sýnatöku í suðurbyggingu flugstöðvarinnar, þar sem starfsfólk Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og samstarfsaðilar þeirra taka sýni af komufarþegum. Farþegarnir þurfa áður að hafa fyllt út skráningarform og hafa jafnframt verið hvattir til að hlaða niður smitrakningarforriti Almannavarna.
Isavia, sem rekstraraðili Keflavíkurflugvallar, kom að undirbúningi þessa verkefnis og setti m.a. upp aðstöðuna í samræmi við óskir stjórnvalda en sóttvarnaaðgerðin sjálf er á ábyrgð þeirra. Aðstaðan er staðsett áður en farið er í gegnum landamæraeftirlit á leið inn til Íslands á annarri hæð í suðurbyggingu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar.
Sóttvarnaaðgerðin miðast við að tekin verði að hámarki um 2.000 sýni á dag en það svarar aðeins til um 4-5% af afkastagetu flugvallarins. Viðbragðshópur Isavia hefur á síðustu vikum unnið að því að laga umsvifin á Keflavíkurflugvelli að þeim aðstæðum sem ríkja. Þetta hefur falið í sér ýmsar ráðstafanir sem varða aðstöðuna, þrif og umgengni, auk miðlunar upplýsinga til flugfélaga, farþega og rekstraraðila.
SÝNUM ÁBYRGÐ OG TILLITSEMI
Á flugvellinum munu fyrst um sinn gilda strangari viðmiðanir en annars staðar á Íslandi í samræmi við tilmæli Landlæknis, sem gefin voru út 14. júní, sökum sérstöðu alþjóðaflugvalla sem samgöngumiðstöðva og gátta inn í lönd. Við hvetjum starfsmenn og farþega til að sýna ábyrgð og tillitssemi þegar ferðast er um flugvöllinn með því að gæta hreinlætis, sóttvarna og hæfilegra fjarlægðarmarka. Þeir sem finna fyrir einkennum eiga hvorki að vera á ferð um flugvöllinn né við vinnu þar.
Í upphafi faraldurs voru flug frá hættusvæðum meðhöndluð sérstaklega en núna eru öll lönd utan Færeyja og Grænlands flokkuð sem hættusvæði og því eru nú teknar upp aðrar ráðstafanir á Keflavíkurflugvelli fyrir komufarþega en í upphafi faraldursins.
- Nánari upplýsingar fyrir farþega má finna á www.kefairport.is/covid