Aukin umsvif á alþjóðaflugvellinum í Suðurnesjabæ
– segir Magnús Stefánsson bæjarstjóri í Suðurnesjabæ í áramótapistli
„Eftir samdráttartíma frá falli WOW Air 2019 og síðan heimsfaraldur Covid-19 sem hófst í ársbyrjun 2020, sem olli samdrætti í atvinnustarfsemi og miklu atvinnuleysi á svæðinu þá hefur á örstuttum tíma orðið alger viðsnúningur. Eftir að öll höft voru aflögð og alþjóðaflug fór aftur á flug, hafa umsvif á alþjóðaflugvellinum í Suðurnesjabæ aukist mjög mikið með jákvæðum áhrifum á ýmsa afleidda atvinnustarfsemi og m.a. leitt til fjölgunar starfa. Gert er ráð fyrir að mikil aukning verði á umsvifum á og við flugvöllinn í nánustu framtíð, en nú standa yfir miklar framkvæmdir við stækkun Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar til að mæta þeim auknu umsvifum sem fyrirsjáanlegt er að verði,“ segir Magnús Stefánsson, bæjarstjóri í Suðurnesjabæ, í áramótapistli sem hann skrifar á vef sveitarfélagsins.
Þá segir í pistlinum: „Sjávarútvegurinn hefur gengið vel og atvinnustarfsemi almennt hefur gengið vel á árinu. Allt hefur þetta orðið til að fjölga störfum og skapa eftirspurn eftir vinnuafli, sem hefur haft mjög jákvæð áhrif ef litið er til atvinnustigs og atvinnuþátttöku á svæðinu. Með mikilli fjölgun ferðamanna sem sækja Ísland heim hefur ferðaþjónustan blómstrað á nýjan leik og fjölgaði veitingastöðum í Suðurnesjabæ á árinu þegar tveir nýir veitingastaðir hófu starfsemi.“