Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Aukin þjónusta og lengri opnunartími í Bláa Lóninu
Föstudagur 15. mars 2013 kl. 11:53

Aukin þjónusta og lengri opnunartími í Bláa Lóninu

-ný vefbókunarvél tekin í notkun. Gestir sem fara ekki í lónið verða látnir greiða gjald.

Bláa Lónið mun á næstunni bjóða aukna þjónustu og sveigjanleika með lengri opnunartíma og nýrri vefbókunarvél. Einnig verða gestir sem heimsækja staðinn án þess að fara í Bláa Lónið greiða 10 Evrur fyrir heimsóknina frá og með 1. júní.

Ferðamönnum sem sækja Ísland heim hefur fjölgað mikið það sem af er þessa árs. Nú stefnir í að árið 2013 verði nýtt metár. Bláa Lónið er takmörkuð auðlind og standa þarf vörð um auðlindina og sjálfbærni hennar. Til að vernda upplifun gesta mun Bláa Lónið bjóða aukna  þjónustu og sveigjanleika með vefbókunum og lengri opnunartíma, segir í frétt frá Bláa lóninu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ný vefbókunarvél  eykur þægindi og sveigjanleika.
 Ný vefbókunarvél sem verður hluti af vefsvæðinu www.bluelagoon.com  verður tekin  í notkun á næstu vikum.  Bókunarvélin mun gera viðskiptavinum kleift að bóka heimsóknina í Bláa Lónið með góðum fyrirvara t.d. um leið og gengið er frá bókunum á flugi og gistingu. Þegar viðskiptavinir bóka heimsóknina velja þeir dag og á hvaða tíma dags þeir vilja heimsækja Bláa Lónið. Ákveðinn fjöldi getur bókað sig á hverjum tíma og miðast það við þann fjölda sem rúmast í búningsaðstöðu.  Á næstu mánuðum verður einnig hægt að bóka Blue Lagoon spa meðferðir og nudd í gegnum vefinn. Þá munu ferðaskrifstofur geta bókað í gegnum hina nýju vefbókunarvél á haustmánuðum.


Miðnæturopnun í sumar


Bláa Lónið mun lengja opnunartíma í sumar og verður opið frá 09.00 til 24.00  frá 1. júlí til og með 15. ágúst.  Miðnæturopnun er  nýjung  til að auka upplifun gesta enn frekar.  Lengri opnunartími er mikilvægur liður í að anna öllum þeim fjölda sem heimsækja Bláa Lónið yfir sumartímann.  Árið 2012 heimsóttu 585.000 gestir Bláa Lónið og þar af komu 275.000 þeirra í júní, júlí og ágúst.  Fjöldi skoðunargesta nam 112.000.


Í undirbúningi er að þeir gestir sem heimsækja staðinn án þess að fara í Bláa Lónið greiði 10 EUR fyrir heimsóknina frá og með 1. júní.  Tíu prósent gjaldsins mun renna til uppbyggingar innviða ferðaþjónustunnar á Reykjanesi t.d. gangstígagerð og merkinga. Með þessu vill  Bláa Lónið stuðla að verndun þeirrar auðlindar sem liggur í náttúrunni og góðri umgengni við hana.

300 starfsmenn yfir sumarið
Bláa Lónið er eitt af 25 undrum veraldar og einn þekktasti áfangastaður Íslands.  Fyrirtækið er leiðandi í ferðaþjónustu á Íslandi.  Í könnun sem MMR gerði fyrir Ferðamálastofu sl. vetur kom fram að Bláa Lónið var það sem ferðamönnum þótti minnisstæðast frá Íslandsdvölinni.  Hjá Bláa Lóninu starfa 250 starfsmenn og fjölgar þeim í  rúmlega 300 yfir sumarið.  Bláa Lónið hlaut nýlega Íslensku þekkingarverðlaunin 2012. Vefur Bláa Lónsins var einnig valinn besti vefur Íslands árið 2012 hjá samtökum vefiðnaðarins.