Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Aukin þjónusta í almenningssamgöngum sveitarfélaga
Miðvikudagur 19. september 2012 kl. 09:27

Aukin þjónusta í almenningssamgöngum sveitarfélaga

- Samstarf við Vinnumálastofnun og íþróttaferðir.

Nýtt samgöngukort fyrir sveitarfélögin á Suðurnesjum verður kynnt á næstu dögum en það er unnið í samstarfi við Vinnumálastofnun með það að markmiði að gera atvinnuleitendum fært að sækja vinnu innan héraðs á milli sveitarfélaga og á Keflavíkurflugvöll.

Með þessari útgáfu eru almenningssamgöngur á svæðinu efldar til muna en samkvæmt samkomulagi við VMST verður boðið upp á sex ferðir í flugstöðina og á atvinnusvæði í vetur. Einnig verður boðið upp á þrjár fastar ferðir til Grindavíkur á virkum dögum og verður fjöldi ferða til Grindavíkur endurskoðaður áramótin með tilliti til reynslunnar sem þá verður komin. Ferðunum mun fjölga næsta vor en samningurinn gildir í eitt ár.

Íþróttaferðir
Einnig verður boðið upp á svokallaðar íþróttaferðir en þannig gefst íþróttafólki í sveitarfélögunum kostur á að sækja æfingar í Garð eða Sandgerði en þá mun áætlunarbíll fara öfugan hring, fyrst í Garð, þá Sandgerði og til baka í Garðinn áður en bíllinn heldur áfram til Reykjanesbæjar. Ferðirnar eru tilraun fram að áramótum og ef vel gengur eru líkur á framhaldi á næsta ári.

Tímatöflur og leiðakort sem sent verður til allra heimila á Suðurnesjum næstu daga gildir til áramóta eða þar til annað verður ákveðið. Mikil gerjun er í samgöngumálum á Suðurnesjum þar sem sveitarfélögin eiga gott samstarf og stefnir í verulegar bætur og fjölgun ferða á öllu svæðinu á næsta ári.

Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum þakkar VMST samstarfið og vonar að það verði til að fjölga atvinnutækifærum og minnka atvinnuleysi á svæðinu, segir í tilkynningu.
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024