Aukin tengsl á milli burðardýra og mansals
Skv. nýrri ársskýrslu lögreglunnar á Suðurnesjum.
Síaukin tengsl milli svokallaðra „burðardýramála“ og „mansalsmála“ hafa verið að koma í ljós að undanförnu, að því er fram kemur í nýútkominni ársskýrslu embættis lögreglustjórans á Suðurnesjum fyrir árið 2013. Ýmsar vísbendingar hafa komið fram um að burðardýr hafi verið þvinguð til verka.
Á árinu var lagt hald á um það bil 20 kíló af ýmsum fíkniefnum tengt farþegum í FLE, auk rúmlega 14 þúsund e-taflna. Einn aðili lagði á sig mikið erfiði við að smygla innvortis til landsins efni, sem hann taldi fíkniefni, en reyndist þá löglegt hér á landi. Gæsluvarðhaldsdagar vegna rannsókna mála deildarinnar urðu rúmlega 900. Sé þessum fjölda jafnað á árið þá voru nær þrír aðilar í gæsluvarðhaldi á hverjum degi vegna fíkniefnamála, vændisstarfsemi og gruns um mansal, smygls á fólki, skilríkjafölsunar og annars af svipuðum toga. Málunum tengdust 178 aðilar, þar af rúmlega 90% karlar, langflestir á aldrinum 20 til 30 ára.
Skipulagsbreyting og nýtt nafn
Umtalsverðar breytingar voru gerðar á starfsemi rannsóknardeildar fíkniefnamála á árinu 2013. Starfsemin var endurskipulögð og starfsemi hennar flutt í Flugstöð Leifs Eiríkssonar til að mæta auknum kröfum um
aðgerðir gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Nafni hennar var breytt í rannsóknardeild skipulagðrar brotastarfsemi, RSB.
Helstu breytingar urðu þær að mál vegna skilríkjafölsunar urðu verkefni deildarinnar auk þeirra sem fyrir voru, en stór hluti verkefna sem deildin sinnti hafa nú verið færð til almennu deildar lögreglu, svo sem fangaflutningar og rannsóknir smærri fíkniefnamála í umdæminu.
Fljótlega tóku meginverkefni hennar að varða glæpastarfsemi, tengdri alþjóðaflugvellinum á Keflavíkurflugvelli, innflutning fíkniefna og þætti sem tengja má skipulagðri glæpastarfsemi. Það leiddi til mikils fjölda gæsluvarðhaldsdaga og fangagæslu. Mál sem tengdust smygli fíkniefna innvortis leiddu til sérhæfingar, því slík mál voru ekki algeng hjá öðrum embættum, og var komið upp hjá embættinu frábærri aðstöðu til úrvinnslu sönnunargagna í þessum málum.