Aukin tækifæri í ferðaþjónustu á Suðurnesjum
- segir Magnea Guðmundsdóttir hjá Bláa lóninu
Þrátt fyrir að október sé genginn í garð þá virðist lítið draga úr straumi ferðamanna. Annríki er í Flugstöð Leifs Eiríkssonar alla daga og sömu sögu eru að segja úr Bláa lóninu, sem er einn vinsælasti áfangastaður erlendra ferðamanna hér á landi. Þar stefnir í enn eitt metárið. Gestir eru hvattir til að bóka komu sína í lónið fyrirfram og sérstaklega ef koma á yfir miðjan daginn.
„Hér er allt fullt af fólki og við erum bara nokkuð ánægð með okkar stöðu. Við komum vel undan sumri. Þrátt fyrir að hafa tekið á móti mörgum gestum í sumar þá gekk traffíkin vel og nýja bókunarkerfið okkar og fyrirkomulagið að fólk bóki komu sína fyrirfram tókst mjög vel. Við vorum ekki með langar biðraðir og fólk átti sinn tíma í Bláa lóninu. Okkar markmið er að standa vörð um upplifun gesta. Við erum með 700 skápa hjá okkur og erum að öllu jöfnu að selja út 250 skápa á klukkustund. Þannig eru einhverjir að njóta sín í lóninu á meðan aðrir eru að fara uppúr og aðrir ofaní. Við höfum fengið mjög góð viðbrögð við þessu bæði frá gestum og starfsfólki og traffíkin er jöfn yfir daginn,“ segir Magnea Guðmundsdóttir upplýsingafulltrúi Bláa lónsins í samtali við Víkurfréttir.
– Þið hvetjið enn fólk til að bóka tíma þó það sé að koma vetur?
„Já, við gerum það og hvetjum til þess sérstaklega hjá þeim sem vilja koma yfir miðbik dagsins. Það eru yfirleitt færri hjá okkur þegar það fer að kvölda. Ef að fólk vill fara í spa og eiga sinn tíma í lóninu þá er gott að bóka þá upplifun fyrirfram því þá nýtist tíminn ennþá betur“.
Magnea hvetur fólk til að nýta sér einnig aðra afþreyingu á Reykjanesi, hvort sem það sé að aka út á Reykjanes eða heimsækja byggðarlögin á svæðinu. Magnea telur að ferðaþjónustan á Suðurnesjum eigi eftir að styrkjast enn frekar á næstu misserum eftir að svæðið hlaut vottun sem Reykjanes Geopark. Ferðaþjónustufyrirtæki vinna einnig orðið meira saman að því að byggja upp upplifun. Þannig eru mörg dæmi um það að ferðamenn byrji daginn í Bláa lóninu, fari þaðan í t.d. fjórhjólaævintýri og komi svo aftur í Bláa lónið til að njóta þess sem veitingastaðurinn Lava hefur uppá að bjóða.
„Það eru mikil tækifæri fyrir hendi og við sjáum það í sveitarfélögunum hér í kring að það er að aukast úrval á þjónustu, ný veitingahús og kaffihús eru að spretta upp. Þetta er mjög jákvætt fyrir ferðaþjónustuna. Þetta hefur líka áhrif fyrir okkur sem búum á þessu svæði því það eru fleiri til að versla og njóta“. Magnea bendir á að það sé eins í ferðaþjónustu sem öðru að það tekur tíma að byggja upp viðskipti.
– Það má sjá fimm byggingakrana hér við Bláa lónið en þessar framkvæmdir eru ekkert að trufla gesti ykkar?
„Við fáum mjög fáar kvartanir frá gestum. Við leitumst líka við að upplýsa gesti Bláa lónsins um að það séu framkvæmdir hjá okkur. Þær felast í því að við ætlum að stækka lónið sjálft um helming, spa sem við byggjum inn í hraunið og í framhaldi af því er nýtt lúxushótel sem mun opna árið 2017“.
Magnea sagði að þau í Bláa lóninu horfi björtum augum til vetrarins. Nú sé ferðþjónusta á Íslandi orðin heilsárs atvinnugrein og þó svo traffíkin sé ekki eins mikil yfir vetrarmánuðina eins og á sumrin, þá sé veturinn samt annasamur.