Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Aukin aðsókn á tjaldsvæðið í Grindavík
Tjaldsvæðið í Grindavík er oft þétt skipað. Mynd af vef Grindavíkurbæjar.
Miðvikudagur 11. júlí 2012 kl. 09:36

Aukin aðsókn á tjaldsvæðið í Grindavík

Óhætt er að segja að líf og fjör hafi verið á tjaldsvæðinu í Grindavík það sem af er sumri. Gestum og gistinóttum hefur fjölgað töluvert á milli ára, bæði í maí og júní. Í gær kom 30 manna skátahópur frá Frakklandi sem mun dvelja á tjaldsvæðinu næstu daga.

Óhætt er að segja að tjaldsvæðið hafi slegið í gegn því samkvæmt könnunum sem gerðar hafa verið á meðal tjaldsvæðisgesta, síðast í fyrra, er mikil ánægja ríkjandi með tjaldsvæði, bæði aðstöðuna og þjónustuna. Gestir í fyrra voru til helminga Íslendingar og útlendingar og gáfu þeir tjaldsvæðinu fyrstu einkunn. Tjaldsvæðið var opnað 2009 og nýtt þjónustuhús tekið í notkun í fyrra.

Tjaldsvæðisgestir í maí og júní í sumar voru 1640 borið saman við 1412 á sama tíma í fyrra. Gistinætur sömu mánuði í sumar eru 2227 en voru 1977 á sama tíma í fyrra. Þá hefur júlímánuður farið mjög vel af stað.

Af samtölum við aðila í ferðaþjónustu í Grindavík í sumar að dæma er samdóma álit þeirra að ferðamannastraumur í Grindavík hafi aukist talsvert í sumar og njóta þar flestir góðs af sem eru í ferðaþjónustu, verslun eða annarri þjónustu.  Þar hefur tilkoma nýja Suðurstrandarvegarins mikið að segja að þeirra mati en mikil umferð hefur verið þar eftir að vegurinn var malbikaður.

Þá má geta þess að miðað við umferðamælingar í tengslum við Sjóarann síkáta er áætlað að hátt í 20 þúsund manns hafi verið í bænum um Sjómannadagshelgina.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024