Aukið viðbúnaðarstig hjá Varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli
Viðbúnaðarstig var í gær aukið hjá Varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli og er það í samræmi við aukið viðbúnaðarstig í Bandaríkjunum vegna ótta við hryðjuverkaárásir á landið í kjölfar þróunar í Íraksdeilunni. Jóhann Benediktsson sýslumaður á Keflavíkurflugvelli staðfesti í samtali við Víkurfréttir að viðbúnaðarstig hafi verið aukið. Friðþór Eydal upplýsingafulltrúi Varnarliðsins staðfesti þetta einnig og sagði að aukin gæsla væri nú á Vallarsvæðinu en vildi ekki tjá sig meira um málið. Samkvæmt heimildum Víkurfrétta er viðbúnaðarstig hjá Varnarliðinu í dag á stigi B en eftir hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin 11. september var viðbúnaðarstig allra herstöðva Bandaríkjanna í heiminum sett á stig C. Hæsta viðbúnaðarstig er stig D, en þá er um stríðsástand að ræða.
VF-ljósmynd sem tekin var í hliði Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli eftir 11. september en þá var í gildi næsthæsta viðbúnaðarstig hjá Varnarliðinu.
VF-ljósmynd sem tekin var í hliði Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli eftir 11. september en þá var í gildi næsthæsta viðbúnaðarstig hjá Varnarliðinu.