Aukið öryggi sæfarenda í Grindavíkurhöfn
Grindavíkurhöfn er ein af öflugri höfnum landsins sem hefur alla burði til þess að vera í allra fremstu röð. Margir aðilar hafa hagsmuna að gæta þegar kemur að starfsemi hafnarinnar því hún er lífæð bæjarfélagsins. Í sumar var ráðist í að dýpka rennu í innsiglingu og innan hafnar var dýpkað og þannig hægt að taka á móti stærri skipum en áður. Jóhann Þór Sigurðsson tæknifræðingur hjá Siglingastofnun sem hefur haft umsjón með framkvæmdum Grindavíkurhafnar, segir höfnina upphaf og endir alls í Grindavík.
„Án hafnarinnar væri engin grundvöllur fyrir búsetu. Nær öll fyrirtæki og öll atvinnustarfsemi tengist höfninni beint eða óbeint. Fiskiskip og fiskveiðar hafa þróast með árunum og höfnin verður að gera það líka til að geta boðið nauðsynlega og samkeppnishæfa þjónustu. Einnig hafa fiskiskip stækkað sem kallar á aukið dýpi og rýmri snúningssvæði innan hafnarinnar. Eftir dýpkun í rennu og innan hafnar er hægt að taka á móti stærri skipum en áður," segir Jóhann.
Styrkleikar Grindavíkurhafnar eru miklir. Höfnin er öruggari eftir miklar framkvæmdir við innsiglinguna undanfarna áratugi og hér er góð þjónusta og öflug sjávarútvegsfyrirtæki. Tækifæri liggja í því að efla almenna löndunarþjónustu t.d. með því að stofna sérstakt fyrirtæki um slíka þjónustu. Veikleikar liggja í ímynd innsiglingarinnar sem þótti viðsjárverð á sínum tíma en öryggi og þjónusta einkenna nú Grindavíkuhöfn.
„Sterkur hliðarvindur er erfiðastur fyrir skipstjórnarmenn þegar siglt er inn til Grindavíkur, með breikkun rennunar höfum við gefið skipstjórnarmönnum meira svigrúm til að takast á við hliðarvind og aukið þannig öryggi sæfarenda," segir Jóhann um dýpkunarframkvæmdirnar í sumar.
Hann segir að staða Grindavíkurhafnar sé með miklum ágætum. Langt er komið með viðhaldsvinnu á Kvíabryggju sem ætti að lengja líftíma hennar um 10-15 ár. Til þess að gera eru nýir viðlegukantar við Norðurgarð og Suðurgarð. Næsta stóra verkefni sem þarf að fara í er Miðgarður.
Hjá hafnarstjórn liggur fyrir það verkefni að blása til sóknar með öflugri markaðsherferð til að kynna höfnina á markvissan hátt til þess að fá hingað fleiri skip og þar með auka tekjur hafnarinnar. Jafnframt þarf að bæta löndunarþjónustu og er þegar farið að undirbúa það.
(Greinin er úr Járngerði, fréttabréfi Grindavíkurbæjar).