Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Miðvikudagur 14. febrúar 2001 kl. 10:43

Aukið öryggi

Þann 8. febrúar s.l. undirrituðu Brunavarnir Suðurnesja og Neyðalínarlínan h/f. og Línu.Net samning sem felur í sér aukna þjónustu við íbúa- og þá sem um útkallssvæði B.S. fara. Þjónustusvæði B.S. er Reykjanesbær, Vogar, Vatnsleysuströnd að Straumsvík og Garður. Öll neyðarsímsvörun verður færð frá varðstofu slökkviliðs B.S. til Neyðarlínunnar og B.S. hefur fest kaup á öflugu fjarskipakerfi, TETRA, hjá Línu.Net.

Nákvæmar upplýsingar
„Verkefni samkvæmt samningi þessum eru m.a. neyðarsímsvörun og þjónusta í útkalli, allan sólarhringinn alla daga ársins. Með þjónustu í útkalli er m.a. átt við fjarskipta- og upplýsingaþjónustu sem Neyðarlínan veitir slökkviliði í útkalli, þ.e. að varðstofa Neyðalínunnar geti t.d. haft stöðugt fjarskiptasamband við útkallsbifreið B.S. og veitt nánari upplýsingar um slysavettvang s.s. staðhætti, aðstæður og fl. hverju sinni, kalla út aukamenn samkvæmt beiðni slökkviliðsstjóra hverju sinni“, segir Sigmundur Eyþórsson slökkviliðsstjóri B.S. til útskýringar.
„Í samningnum er einnig ákvæði um að Neyðarlínan sjái um gagnaflutning um símalínu milli aðila, þannig getur B.S. haft aðgang að sömu upplýsingum og Neyðarlínan hf. á tölvuskjá á slökkvistöð.

Fullkomið fjarskiptakerfi
Brunavarnir Suðurnesja undirrituðu jafnframt samning við Línu.Net hf. um kaup á búnaði og fjarskiptaþjónustu á nýju TETRA fjarskiptakerfi, en samskipti Neyðalínunnar og B.S. byggja að miklu leiti á því kerfi.
„Tetra fjarskiptatæknin er ný af nálinni og er að ryðja sér til rúms í flestum nágrannalöndum okkar. Kerfið byggir á stafrænum grunni sem býður upp á margs konar möguleika sem henta fyrirtækjum og stofnunum. Tækin er hægt að nota sem talstöðvar eða síma auk þess sem hópastjórnun er mjög auðveld. Þar sem gagnaflutningar eru mögulegir á meðan talað er, þá er t.d. hægt að senda staðsetningarhnit frá hverju tæki með reglulegu millibili. Sjúkrabifreiðar Brunavarna Suðurnesja hafa þegar verið útbúnir með slíkum búnað til ferilvöktunnar. Þannig má sjá staðsetningu sjúkrabifreiða hverju sinni og jafnvel stytta útkallstíma“, segir Sigmundur en sjúkrabifreiðar B.S. eru þær fyrstu á landinu sem búnar eru slíkum búnað og fer ferilvöktunin fram á Neyðarlínunni.
Tetra tæknin býður upp á mikla möguleika að sögn Sigmundar, og er því tilvalin til samræmingar á björgunaraðgerðum af öllu tagi. Hægt er að samræma fjarskipti hópa með lögreglu, björgunaraðilum, læknum, almannavörnum og fleiri aðilum á slysavettvangi.

Öryggi og fagmennska í fyrirrúmi
Lína.Net hefur gert samning til 10 ára við helstu ríkisstofnanir sem koma að björgunarmálum auk ýmissa stofnana Reykjavíkursvæðisins. Brunarvarnir Suðurnesja, sem annast brunavarnir, sjúkraflutninga og önnur neyðarviðbrögð í Reykjanesbæ, Garðinum, Vogunum og nágrenni, bætast nú í þennan hóp og gera þannig samræmingu björgunaraðgerða mun öruggari og auðveldari.
„Undanfarin ár hefur orðið ör þróun á sviði fjarskipta og hafa Brunavarnir Suðurnesja kappkostað við að fylgja þeirri þróun með það að markmiði að veita sem bestu þjónustu á svæðinu hverju sinni af öryggi og fagmennsku. Samningarnir eru svo sannarlega liður í því þar sem neyðarsímsvörun, útkallstími og viðbrögð í neyð verður mun öflugri“, segir Sigmundur.

Á myndinni hér að neðan sést hvar Sigmundur Eyþórsson, slökkviliðsstjóri BS, þeytir gamlan brunalúður sem slökkviliðið notaði fyrir mörgum árum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024