Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Mánudagur 3. desember 2001 kl. 13:47

Aukið atvinnuleysi á Suðurnesjum

Atvinnuleysi hefur aukist á Suðurnesjum frá því í septemberbyrjun að sögn Ketils G. Jósefssonar forstöðumanns Svæðisvinnumiðlunar Suðurnesja.
„Hér er árstíðabundið atvinnuleysi eins og víða annars staðar á landinu. Konur eru í meirihluta en fjöldi atvinnulausra karla hefur aukist á milli ára. Þegar ég nefni árstíðabundið atvinnuleysi þá er það í tengslum við sumarafleysingastörf hjá Varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli og hjá hinum ýmsu fyrirtækjum innan Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar“, segir Ketill til skýringar og bætir við að eftirspurn eftir vinnuafli aukist með hækkandi sól. Hann bendir einnig á að atburðirnir sem áttu sér stað 11. september sl. hafi haft áhrif á atvinnulífið hér sem annars staðar sem og rýrnun íslensku krónunnar.
„Atvinnuástandið hefur verið verst í ýmis konar þjónustu, má þar nefna ræstingar, verslunar- og skrifstofustörf, mötuneytisstörf, að ferma og afferma flugvélar (hleðslumenn) o.fl. Aftur á móti hefur fiskvinnslan staðið af sér allar raunir ennþá og byggingariðnaðurinn er á svipuðu róli og verið hefur. Það er að sjá þar sem vantar starfsfólk virðast atvinnurekendur halda að sér höndum er varðar mannaráðningar“, setir Ketill.
Í dag eru 89 konur og 27 karlar án atvinnu á Suðurnesjum eða samtals 116 manns. Miðað við árið í fyrra er þetta meira en helmingi meira en minna ef miðað er við árið 1999. en þá voru um 176 án vinnu á þessum tíma. „Styrkleikar okkar á þessu svæði er fjölbreytt atvinnulíf, góðar menntastofnanir, aukið framboð á sérhæfðu vinnuafli, nálægð við alþjóðlegan flugvöll og höfuðborgarsvæði. Veikleikarnir eru að mínu mati skipulagsskortur og vöntun á gleggri framtíðarsýn sem kallar á athuganir og rannsóknarvinnu í auknum mæli“, segir Ketill að lokum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024