Auka þjónustustig í Vogum með nýrri dráttarvél
Sveitarfélagið Vogar festi nýverið kaup á nýrri dráttarvél til nota fyrir umhverfisdeild sveitarfélagsins. Dráttarvélin er af gerðinni Case og seljandi er Kraftvélar. Magnús Björgvinsson hjá Kraftvélum afhenti sveitarfélaginu dráttarvélina í morgun og við henni tóku Ásgeir Eiríksson bæjarstjóri og Vignir Friðbjörnsson, deildarstjóri umhverfis og eigna.
Dráttarvélin er fjórhjóladrifin og vel búin tækjum, m.a. ámoksturstækjum með 1500 kg lyftigetu, frambúnaði með 2500 kg lyftigetu og snjóplóg með 250 cm vinnslubreidd. Með dráttarvélinni var einnig keyptur sturtuvagn.
Sveitarfélagið mun nú m.a. annast snjómokstur og hálkueyðingu með eigin vélakosti þannig að þjónustustig sveitarfélagsins og rekstraröryggi batnar umtalsvert.
VF-mynd: Hilmar Bragi Bárðarson