Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Auglýst eftir skólastjóra Akurskóla
Sunnudagur 13. febrúar 2005 kl. 14:05

Auglýst eftir skólastjóra Akurskóla

Staða skólastjóra við Akurskóla í Tjarnahverfi hefur verið auglýst en sá einstaklingur sem ráðinn verður þarf að búa yfir yfirgripsmikilli þekkingu á skólastarfi. Nýr skólastjóri mun móta og undirbúa skólastarf Akurskóla í samstarfi við fræðsluyfirvöld en gert er ráð fyrir að ráðið verði í stöðuna frá og með 1. apríl n.k. eða eftir nánara samkomulagi.

Fyrsti áfangi skólans verður tekinn í notkun á komandi hausti 2005 og verða í skólanum nemendur í 1. - 6. árgangi en síðan bætist við einn árgangur árlega þar til heilstæðum skóla hefur verið náð.

Mikil áhersla hefur verið á skólamál og uppbyggingu í starfi allra skóla Reykjanesbæjar undanfarin ár. Unnið er eftir skólastefnu sem síðast var endurskoðuð 2001. Lögð er áhersla á að stuðla að persónulegum og félagslegum þroska allra nemenda og  gera þá færa um að taka þátt í síbreytilegum heimi á ábyrgan og skapandi hátt. Skólinn er vinnustaður barnanna og nauðsynlegt að nemendur eigi kost á að ljúka starfsdegi sínum að mestu leyti í skólanum.  Mikið samstarf er á milli leik-, grunn- og tónlistarskóla bæjarins.

Akurskóli - nýjar leiðir í skólastarfi 
Fyrsti  áfangi þessa nýja grunnskóla, verður tekinn í notkun á komandi hausti. Fyrsta starfsárið verða í skólanum nemendur í 1.-6. árgangi grunnskóla. Síðan bætist við einn árgangur þar til heilstæðum skóla hefur verið náð. Haustið 2005 hefja því skólagöngu í Akurskóla börn fædd 1994-1999. Við hönnun Akurskóla hefur verið  leitast við að búa nemendum námsumhverfi sem kemur til móts við ólíkar þarfir nemenda. Í einstaklingsmiðuðu námi eru nemendur þjálfaðir í að leita sér þekkingar, hver á sínum hraða og með þeirri aðferð sem hentar þeim best.

Í Akurskóla er ætlunin að leggja áherslu á:
• Nána samvinnu kennara og samábyrgð á framkvæmd kennslu.
• Nána samvinnu alls starfsfólks við uppbyggjandi störf með börnum.
• Einstaklingsmiðað nám með áherslu á samvinnu í misstórum námshópum og samkennslu árganga þar sem þörf krefur.
• Samþættingu námsgreina og fjölbreytta kennsluhætti.
• Að nemendur hafi samfelldan vinnudag, þannig að nám og frístundir myndi eina heild.

Akurskóli er hannaður sem heilstæður grunnskóli fyrir um 450 nemendur og verður fullbúinn um 6000m2 en fyrsti áfangi er ætlaður 100-150 nemendum.

 Markmið grunnskólastarfs er að stuðla að þroska og menntun hvers einstaklings. Til þess að unnt sé að mæta  þörfum ólíkra einstaklinga þarf að fara fjölbreyttar og margvíslegar leiðir. Mannauður sá sem í kennurum býr, nýtist betur í samstarfi og samvinnu, þar sem kennarahópurinn ber sameiginlega ábyrgð, miðlar ólíkri þekkingu sinni og reynslu og tryggir þannig nemendum gott og hvetjandi námsumhverfi.

Reykjanesbær hefur áhuga á að kanna hvort hljómgrunnur sé fyrir þróun nýs kjarasamnings við kennara sem ráða sig við Akurskóla. Þetta er í samræmi við bókun 5 í viðauka kjarasamnings KÍ og launanefndar en þar segir:

"Samningsaðilar eru sammmála um að skapa tækifæri á samningstímabilinu fyrir grunnskóla að taka upp í tilraunaskyni til eins árs í senn, hliðstæð vinnutímaákvæði og gilda hjá öðrum háskólamenntuðum starfsmönnum sveitarfélaga þ.e. á bilinu kl. 8:00 –17:00 og innan þeirra tímamarka sé öll vinnuskylda kennara (kennsla, undirbúningstími, verkstjórnartími og tími vegna símenntunar). Samkomulag milli skóla og sveitarfélaga skal borið undir samstarfsnefnd".

Þetta er verkefni sem gæti orðið til góðs því nýbreytnistarfi sem fram á að fara í Akurskóla. Þess má geta að Reykjavíkurborg og Garðabær hafa hafið undirbúning að gerð slíkra samninga við tiltekna skóla.


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024