Auglýst eftir húsnæði fyrir bráðabirgðaheilsugæslustöð
-Átta ný dagdvalarrými í Suðurnesjabæ. HSS í samvinnu við Landspítala vegna Covid 19
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, segir að á næstu vikum verði auglýst eftir húsnæði fyrir nýja heilsugæslustöð sem bráðbirgðalausn á meðan beðið er eftir byggingu nýrrar. Hún segir að nauðsynlegt sé að bregðast við á miklu vaxtarsvæði sem Suðurnesin eru og ekki sé hægt að bíða til ársins 2023 eða 2024 þegar áætlað er að byggingu nýrrar heilsugæslu ljúki.
„Þetta er komið í farveg og verður auglýst eftir húsnæði á næstu vikum. Það er líka ánægjulegt að geta greint frá því að við erum að sjá verulega hreyfingu á byggingu 60 hjúkrunarrýma í Reykjanesbæ og svo erum við að taka ákvörðun um 8 ný dagdvalarrými í Suðurnesjum. Þá hefur Heilbrigðisstofnun Suðurnesja boðið Landsspítalanum samstarf nú þegar hert hefur að í Covid-19 og boðið allt að tíu almenn legurými til að létta á stöðunni á höfuðborgarsvæðinu. Það er sérstaklega ánægjulegt að aðilar séu að vinna svona saman í kerfinu. Það staðfestir að við erum í öllu þessu saman,“ sagði Svandís við Víkurfréttir að loknum blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í Duus Safnahúsum í vikunni.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra sagði að ríkisstjórnin hafi átt góðan fund með fulltrúum sveitarstjórna á Suðurnesjum í heimsókn ríkisstjórnarinnar. „Við áttum góðar viðræður við Suðurnesjamenn m.a. varðandi atvinnuleysi sem hefur sem betur fer farið minnkandi að undanförnu en líka mörg önnur góð mál,“ sagði Katrín. Berglind Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum sagði fundinn hafa verið árangursríkan og fréttir úr heilbrigðisgeiranum mjög góðar.