Auglýsa eftir framkvæmdastjóra Hljómahallar
Reykjanesbær auglýsir nú eftir framkvæmdastjóra Hljómahallar, sem er ný menningarmiðstöð í Reykjanesbæ. Hjólmahöll er ætlað að vera máttarstólpi menningarlífs á Reykjanesi. Framkvæmdir standa nú yfir við að ljúka framkvæmdum í húsnæði Hljómahallar en gert er ráð fyrir að það opni um næstu áramót.
Nýr framkvæmdastjóri ber ábyrgð á rekstri Hljómahallar. Hann er ábyrgur fyrir allri framkvæmd viðburða í húsinu, s.s. tónleika- og ráðstefnuhaldi, veislum, dansleikjum o.s.frv. bæði undirbúningi, framkvæmd og eftirfylgni að viðburði loknum, eins og segir í auglýsingu. Þá ber framkvæmdastjóri einnig ábyrgð á markaðssetningu Hljómahallar.
Hlutverk Hljómahallar, tónlistar- og menningarhúss, er að vera mikilvægur vettvangur fjölskrúðugs mannlífs, ráðstefnuhalds, funda og menningarviðburða í Reykjanesbæ. Með tilkomu Hljómahallar er lagður grunnur að auknum tækifærum í sköpunar- og afþreyingariðnaði á Reykjanesi.
Umsóknarfrestur um starfið er til og með 28. október nk. Sótt er um starfið á vef Reykjanesbæjar.