Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Auðarstofa opnar í Garði
Laugardagur 20. október 2007 kl. 14:32

Auðarstofa opnar í Garði

Ný aðstaða fyrir félagstarf 60 ára og eldri var opnuð í gær, föstudag, að Gerðavegi 1. Eldri borgarar hafa valið húsnæðinu nafnið Auðarstofa, en með tilkomu þess verður sannkölluð bylting í félags- og tómstundastarfi í bænum. Húsnæðið er 180 fermetrar að flatarmáli, skipt í tvo góða sali, vinnuherbergi, setustofu, eldhús og herbergi sem nýtist sem lager fyrir ýmsan varning sem notaður er til starfsins.

 

Möguleikar á fjölbreyttu starfi eru miklir og góð aðstaða til handverksgerðar, hreyfingar, leikfimi, dansæfinga og leikja.  Í máli Hreins Guðbjartssonar sem flutti ávarp við opnunina og er tíundað á vef sveitarfélagsins, kom fram að nafnið hefði verið valið til að minnast Auðar Tryggvardóttur sem bjó að Gerðavegi 1 og rak þar verslun ásamt manni sínum Birni Finnbogasyni á neðri hæð hússins þar sem félagsstarfið er nú. Auður tók virkan þátt í félagstarfi á meðan hún lifði og var m.a. formaður Kvenfélagsins Gefnar í 25 ár.  Eins hefur nafnið skýrskotun í þann mannauð sem býr í eldri borgurum og hvernig hann verður nýttur og efldur í öflugu félagsstarfi.

 

Bæjarstjóri, Oddný Harðardóttir, þakkaði í ávarpi sínu öllum þeim sem lögðu hönd á plóginn við að gera húsnæðið tilbúið fyrir starfsemina.

 

Sérstaklega þakkaði hún eigendum hússins þeim systkinum Björgu og Finnboga Björnsbörnum og forstöðukonunum Ingibjörgu og Sigurborgu Sólmundardætrum.  Þær systur hafa að krafti byggt upp gott félagsstarf sem verða mun enn öflugra með betri aðstöðu.  Bæjarstóri sagði það von sína að ávallt yrði glatt á hjalla í félagsstarfinu, verkefnin fjölbreytt og að gleði ríkti í leik og við sköpun.  Að lokum óskaði hún þess að gæfa fylgdi starfinu að Gerðavegi  1 í Garði.

VF-mynd/Þorgils: Frá opnunarhátíð Auðarstofu

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024