Atvinnuþróunarfélagið lýsir áhyggjum af ákvörðun meirihlutans í Vogum vegna raflínumála
„Atvinnuþróunarfélag Suðurnesja, Heklan, lýsir yfir verulegum áhyggjum af ákvörðun meirihluta bæjarfulltrúa í Vogum um að setja ákvarðanir um raflínulagnir á vestanverðum Suðurnesjum í uppnám. Hvað sem líður stórum atvinnuverkefnum á Suðurnesjum er full þörf á endurnýjun orkulagna um Suðurnes. Þar hefur verið miðað við heildstæða lausn óháða sveitarfélagamörkum. Bæjarfélögin eru á lokastigum með gerð sameiginlegs svæðisskipulags sem unnið hefur verið að í þrjú ár. Þar er gert ráð fyrir loftlínulögnum í óbyggðum svæðum í landi Grindavíkur, Voga, Garðs og Sandgerðis allt að Fitjum í Reykjanesbæ þegar kemur að íbúabyggð. Línulögnin í landi Voga er samkvæmt nýlega samþykktu aðalskipulagi Voga. Atvinnuþróunarfélagið hvetur bæjarfulltrúa í Vogum til að endurskoða ákvörðun sína svo ekki komi upp deilumál um hvort ný ákvörðun Voga er gild skv. samningum við Landsnet með tilheyrandi töfum og forða því að koma samvinnu sveitarfélaganna í uppnám.“
Þetta kemur fram í bókun sem stjórn Atvinnuþróunarfélags Suðurnesja lagði fram og samþykkti samhljóða í dag. Stjórn Atvinnuþróunarfélagsins skipa eftirfarandi: Árni Sigfússon formaður, Róbert Ragnarsson varaformaður, Sigrún Árnadóttir, Eirný Valsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Kjartan Eiríksson og Gunnar Ellert Geirsson.