Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Atvinnurekendum verði kynntur stuðningur við samfélagsleg verkefni í Reykjanesbæ
Á síðastliðnum árum hefur það komið reglulega fram í samtölum við aðila sem standa að íþrótta-, menningar og tómstundastarfi í Reykjanesbæ að fjármögnun rekstrar og verkefna sé vandasamt og tímafrekt verkefni.
Þriðjudagur 20. desember 2022 kl. 13:20

Atvinnurekendum verði kynntur stuðningur við samfélagsleg verkefni í Reykjanesbæ

Tillaga um stuðning við samfélagsleg verkefni í Reykjanesbæ, sem undirrituð er af oddvitum allra flokka sem eiga sæti í bæjarstjórn Reykjanesbæjar, var lögð fyrir bæjarráð Reykjanesbæjar í síðustu viku. Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir lagði fram tillöguna ásamt greinargerð um stuðning við samfélagsleg verkefni í Reykjanesbæ.

Tillagan er þessi: Súlunni verði falið að útbúa kynningu um þau tækifæri sem eru til staðar fyrir atvinnurekendur á svæðinu til að styðja við samfélagið í Reykjanesbæ. Kynningin verði unnin í samstarfi við helstu íþrótta-, tómstunda- og menningarfélög á svæðinu. Kynninguna skal einnig vinna í samstarfi við íþrótta- og tómstundaráð sem og menningar- og atvinnuráð. Í framhaldinu skuli bæjarstjóri tryggja að farið verði á fund stærstu vinnuveitenda á svæðinu og kynningin flutt fyrir þá og opnað á samtalið um tækifæri þeirra til stuðnings við margvísleg samfélagsverkefni í Reykjanesbæ. Kynningarfundir skulu fara fram á fyrsta ársfjórðungi ársins 2023 og í framhaldinu unnið að því að tengja saman aðila á svæðinu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í greinargerð með tillögunni segir: Á síðastliðnum árum hefur það komið reglulega fram í samtölum við aðila sem standa að íþrótta-, menningar og tómstundastarfi í Reykjanesbæ að fjármögnun rekstrar og verkefna sé vandasamt og tímafrekt verkefni.

Forsvarsmenn nefna að þeir tali oft fyrir daufum eyrum, ekki hvað síst þegar um að ræða samtal við rekstraraðila sem reki umfangsmikla starfsemi á svæðinu en séu með höfuðstöðvar sínar utan bæjarfélagsins. Skorts á skilningi á þörfum samfélagsins virðist gæta.

Öll þau stærri fyrirtæki sem starfa hér á svæðinu og treysta á að íbúar Reykjanesbæjar séu áhugasamir um störf hjá þeim virðast, út á við, vera mjög meðvituð um sína samfélagslegu ábyrgð. Af því má ráða að þessi fyrirtæki skilji að þau hafi hag af því að starfsmenn þess kjósi að búa í Reykjanesbæ og nýta þar þá þjónustu og afþreyingu sem í boði er.

Þessi fyrirtæki hafa flest hver markað sér skýrar stefnur um samfélagsábyrgð og því virðist vera fullur vilji hjá atvinnurekendum að vera virkur þátttakandi í því samfélagi sem stór hluti starfsmanna þeirra lifir í. Samfélaginu þar sem börn starfsmanna sækja skóla, stunda tómstundir, iðka íþróttir og starfsmennirnir sjálfir eru virkir þátttakendur í viðburðum, menningu og daglegu lífi. Það virðist því ekki skorta yfirlýstan vilja aðila til að vera virkur þátttakandi í daglegu lífi íbúa Reykjanesbæjar en einhverra hluta vegna lítur það þannig út að einhverjir aðilar í þessum hópi sjái ekki hvaða tækifæri eru til staðar til að styðja við samfélagið í Reykjanesbæ. Reykjanesbær á að opna þetta samtal milli aðila hér á svæðinu. 

Mælikvarði árangurs:

Menningar, íþrótta- og tómstundafélög finni fyrir auknum stuðningi helstu vinnuveitenda íbúa Reykjanesbæjar.

Stærstu atvinnuveitendur íbúa Reykjanesbæjar verði sýnilegri í daglegu lífi bæjarbúa.

Umræður um stuðning við samfélagið Í Reykjanesbæ og hin ýmsu félög innan Reykjanesbæjar eigi sér stað tvisvar á ári milli Reykjanesbæjar og atvinnurekenda.

Kynna skal áfangaskýrslur kynningarátaksins ásamt niðurstöðum úr samtölum fyrir bæjarstjórn reglulega á meðan það varir.

Halldóra Fríða
Þorvaldsdóttir B-lista
Friðjón Einarsson S-lista
Valgerður Pálsdóttir Y-lista
Margrét Sanders D-lista
Margrét Þórarinsdóttir U-lista.