Atvinnumálin efst á blaði
„Ég er mjög þakklát fyrir þann góða stuðning sem Framsókn fékk á Suðurnesjum sem og annars staðar á landinu. Það hefur verið frábært að taka þátt í kosningabaráttunni. Hún var mjög jákvæð og við Framsóknarfólk fengum víðast hvar góðar móttökur og fundum fyrir miklum áhuga á því sem við höfðum fram að færa. Framsókn hefur verið í lægð í nokkur ár en eftir mikið hreinsunarstarf innan flokksins fékk hann verðskuldaða athygli. Málefnastaða okkar var sterk og við náðum að koma okkar skilaboð á framfæri við fólk, eins og niðurstöður kosninganna sína. Framsókn er nú stærsti flokkurinn í Suðurkjördæmi sem er ennþá svolítið óraunverulegt í mínum huga, 33,6% fylgi, en það venst örugglega vel,“ segir Silja Dögg Gunnarsdóttir, sem skipaði 2. sæti Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi. Silja Dögg er að fara ný inn á Alþingi.
„Ég vil þakka stuðningsfólki kærlega fyrir það mikla starf sem það hefur unnið síðustu mánuði og vikur. Þessi árangur hefði ekki náðst án allra þeirra sem lögðu sitt af mörkum í kosningabaráttunni. Öll félögin á Suðurnesjum stóðu þétt saman allan tímann og unnu saman sem einn maður.Nú tekur við nýtt tímabil í mínu lífi sem mun hafa miklar breytingar í för með sér, ekki bara fyrir mig sjálfa heldur alla fjölskylduna. Ég hlakka mikið til að takast á við verkefni á nýjum vettvangi og ætla að leggja mig alla fram við að skila mínu verki vel“.
- Hvað á að vera það fyrsta sem þið sem hópur þingmanna frá Suðurnesjum ættuð að hafa sem fyrsta verk fyrir Suðurnes á Alþingi?
„Stórsigur Framsóknar í kosningunum er sögulegur en einnig stórsigur Suðurnesjafólks sem eignaðist nú sjö nýja þingmenn. Svo marga þingmenn höfum við ekki átt áður. Ég er sannfærð um að við, þingmenn Suðurnesja, eigum eftir að vinna vel saman að hagsmunamálum svæðisins. Fyrir því hlýtur að vera þverpólitískur vilji. Atvinnumálin eru þar efst á blaði sem og skuldamál heimilanna,“ segir Silja Dögg Gunnarsdóttir í samtali við Víkurfréttir.