Atvinnulífið tók góðan kipp í Vogum
Atvinnulífið tók góðan kipp í Sveitarfélaginu Vogum á síðasta ári. Það lýsir sér meðal annars í uppbyggingaráformum fyrirtækja, bæði þeirra sem eru þegar í sveitarfélaginu og þeirra sem vilja flytja starfsemi sína þangað.
Ásgeir Eiríksson bæjarstjóri í Vogum segir það varða miklu hagsmuni sveitarfélagsins að fá fleiri störf þegar til framtíðar er litið, ekki síður skiptir uppbygging og allar þær framkvæmdir sem þeim fylgja miklu máli.
Hjá Stofnfiski er heilmikil uppbygging áformuð á athafnasvæði félagsins í Vogavík, fyrst verður nýtt skrifstofuhúsnæði byggt jafnframt því sem áform eru uppi um framleiðsluaukningu með tilheyrandi uppbyggingu.
Nesbú hyggst auka við húsakost sinn og með því móti koma til móts við ákvæði nýrra reglugerða um aukið rými fyrir varphænsnin.
Loks hyggst Ísaga reisa nýja súrefnis- og köfnunarefnisverksmiðju á iðnaðar-
svæðinu við Vogabraut.