Atvinnuleysi mest á meðal ungs fólks
Þann 30. september 2008 voru 330 manns á atvinnuleysisskrá á Suðurnesjum. Þann 30. apríl síðastliðinn voru 1758 manns komnir á atvinnuleysisskrá, 1020 karlar og 738 konur.
Atvinnuleysið er mest á meðal ungs fólks á aldrinum 16-29 ára. Í þeim hópi voru 804 skráðir atvinnulausir í lok apríl. Í aldurshópnum 30-49 ára voru 634 skráðir atvinnulausir. Alls voru 320 manns eldri en fimmtugt á atvinuleysisskrá.
Af þessum 1758 voru 1488 íslenskir ríkisborgarar. Pólskir ríkisborgarar voru 224 og 46 af öðru ríkisfangi.
Atvinnuleysi er mest í mannvirkjagerð. 417 einstaklingar úr þeim geira voru skráðir atvinnulausir í lok apríl. Næst stærsti hópurinn kom úr verslunargeiranum eða 282. Úr flutningastarfsemi komu 234 og 173 úr annarri þjónustustarfsemi.
Mest var atvinnuleysið á meðal verkafólks en 595 úr þeirri starfstétt voru á atvinnuleysisskrá í lok apríl. Úr afgreiðslu- og þjónustustörfum komu 471 og 222 iðnaðarmenn voru skráðir atvinnulausir. Af sérmenntuðu starfsfólki voru 124 á atvinnuleysisskrá og vélastjórnendur voru 114.
Langflestir þeirra sem voru á atvinnuleysisskrá í lok apríl voru þeir sem einungis höfðu lokið grunnskóla, eða 1317. Hundrað og sextíu voru iðnmenntaðir og 123 höfðu lokið stúdentsprófi. 84 höfðu lokið háskólaprófi.
Af þeim 1758 sem voru á atvinnuleysisskrá í lok apríl voru 346 í hlutastörfum.