Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Atvinnuleysi á Suðurnesjum ekki verið meira á þessari öld
Miðvikudagur 22. október 2008 kl. 15:42

Atvinnuleysi á Suðurnesjum ekki verið meira á þessari öld

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Atvinnuleysi á Suðurnesjum hefur ekki verið meira á þessari öld, segir Ketill G. Jósefsson, forstöðumaður Vinnumálastofnunar Suðurnesja. Atvinnulausum hefur fjölgað um 15 – 20 á degi hverjum síðustu tvær vikurnar og eru þeir nú 554 talsins, þar af 397 úr Reykjanesbæ.  Staðan fer versnandi og álagið á þá fjóra starfsmenn Vinnumálastofnunar Suðurnesja er mikið eins og gefur að skilja.

„Tala atvinnulausra hefur aldrei farið yfir 500 manns hér á Suðurnesjum á þessari öld, fyrr en núna. Þetta hefur aukist dag frá degi og hafa um 15-30 manns verið á skrá sig á degi hverjum. Það var nokkuð mikið um uppsagnir hjá verktökum Varnarliðsins árið 2003 og eins þegar Varnarliðið fór 2006. Það var þó ekkert í líkingu við þetta sem nú er að gerast,“ segir Ketill í samtali við VF.

 „Vinna dregst yfirleitt saman í þjóðfélaginu frá október og fram í febrúar og bankakreppan bætir ekki um betur. Maður heyrir að nokkur fyrirtæki hangi á bláþræði þannig að ef ástandið fer ekki að lagast má búast við enn meiri þrengingum. Það þurfa bara allir að leggjast á eitt og reyna að búa til ný störf. Sveitarfélögin hafa verið að gera það í einhverju mæli.  Ég trúi því að fólk hér á Suðurnesjum hafi dug, þor og kjark til að takast á við vandann,“ segir Ketill.

Hann vildi koma því á framfæri að fólk sem er án atvinnu þurfi að koma á skrifstofu Vinnumálastofnunar til að skrá sig. Þar er opið alla virka daga frá klukkan 09:00 – 15:00.

Þá er hægt að fá allar upplýsingar á vefsíðu Vinnumálastofnunar, www.vinnumalastofnun.is.