Atvinnulausum fjölgar
-munar mest um rúmlega 100 fyrrum Varnarliðsstarfsmenn sem komu inn á atvinnuleysisskrá í haust. Engin ástæða til svartsýni, segir Ketill G. Jósefsson -
Fjöldi atvinnulausra er ívið meiri nú í byrjun desember miðað við atvinnuástand í venjulegu árferði. Munar þar um rúmlega eitt hundrað fyrrum Varnarliðsstarfsmenn sem komu inn á atvinnuleysisskrá í haust eftir að orlofstíma lauk, að sögn Kertils G. Jósefssonar, forstöðumanns Svæðisvinnumiðlunar Suðurnesja.
Nú í byrjun desember voru 319 einstaklingar skráðir atvinnulausir, 118 karlar og 201 kona. Til samanburðar má geta þess að í nóvember í fyrra var meðfjöldi atvinnulausra 173 einstaklingar og 193 voru atvinnulausir í desember.
Ketill G. Jósefsson segir atvinnuástandið alltaf verst á þessum árstíma og fram yfir áramót en það skáni með hækkandi sól. Engin ástæða sé til svartsýni á komandi ári.
Þrátt fyrir fjöldauppsagnir vegna brotthvarfs Bandaríkjahers hefur ástandið á þessu ári verið sérlega gott og menn hafa sé það miklu verra, að sögn Ketils. Í því sambandi má geta þess að árið 2003 var atvinnuástand hvað verst í langan tíma þegar yfir 500 manns voru skráðir atvinnulausir.
„Ég kvíði ekkert komandi ári, þrátt fyrir að verið sé að hræða mann með samdrætti hér og þar. Menn verða bara að vera fljótir að hugsa hvað þeir ætla að gera við þetta svæði og þau tækifæri sem við Suðurnesjamenn höfum. Þau eru mest í kringum flugvöllinn en einnig í ýmsu öðru,“ sagði Ketill.
Mest er það fólk í þjónustu- og skrifstofustörfum sem eru á atvinnuleysisskrá. Á meðal iðnaðarmanna er atvinnuleysi óþekkt um þessar mundir.
„Við höfum ekki sé iðnaðarmann á atvinnuleysisskrá í tvö ár. Ef það hefur gerst hefur viðkomandi stoppað mjög stutt,“ sagði Ketill.
Mynd: Þessir iðnaðarmenn voru að steypa í blíðunni á dögunum þegar myndin var tekin. Atvinnuleysi meðal iðnaðarmanna þekkist varla enda nóg að gera í byggingariðnaði þessi dægrin.
VF-mynd: elg