Atvinnulausir unglingar fá vinnu
Ljósmyndari Víkurfrétta hitti í dag á hóp unglinga sem var við gróðursetningu á Nikkelsvæðinu. Þau létu veðrið ekki á sig fá enda eru þau flest fegin að vera komin í vinnu.
Þau njóta þess að Reykjanesbær hefur ákveðið að bjóða ungu fólki í atvinnuleit á aldrinum 16 - 24 ára tímabundna vinnu í sumar.
Sótt hefur verið um styrki til verkefna á vegum svæðisvinnumiðlana og hafa alls sjö verkefni af ýmsum toga verið samþykkt. Alls eru 60 ungmennum boðin þátttaka og hafa sum þeirra þegar hafið störf.
Margir krakkanna sem urðu fyrir svörum sögðust hafa verið að leita sér að vinnu frá því snemma í vor en það væri ekkert að gera, sérstaklega fyrir þá sem ekki höfðu náð 18 ára aldri. „Það má eiginlega segja að þetta sé skítavinna,“ sagði sá sem sá um lífræna áburðinn í gróðursetningunni og glotti við tönn. „Þetta er samt betra en að gera ekkert.“
Krakkarnir fá vinnu í 4-6 vikur og eru sum búin að finna vinnu eftir það en aðrir neyðast til að fara aftur í sama farið.
Áætlaður kostnaður við verkefnið er kr. 11.820.000 og mun Atvinnuleysistryggingasjóður greiða hluta af þeim kostnaði en að auki hefur bæjarráð Reykjanesbæjar samþykkt viðbótarfjárveitingu til atvinnuátaksverkefna að upphæð kr. 4.000.000.
Við könnun á högum atvinnuleitenda á aldrinum 16 - 24 ára kom í ljós að um 30 einstaklingar á aldrinum 17 - 20 ára, aðallega skólafólk, eru atvinnulausir og án bótaréttar og falla því ekki undir skilyrði um sérstök verkefni svæðisvinnumiðlana. Einnig eru 6 einstaklingar með 50% bótarétt og 23 með 100% bótarétt.
Meðal verkefna sem unnin verða í sumar eru uppgræðsla og fegrun á útivistarsvæðum, aðstoð við kynningu á víkingaskipinu Íslendingi, vinna við gagnagrunn fyrir ferðaþjónustu á Reykjanesi, stuðningur og umönnun við fötluð börn í sumarvistun, vinna við gagnagrunn landupplýsingakerfis fyrir Reykjanesbæ, skráning á listasafni Reykjanesbæjar og aðstoð við námskeiðahald í Listaskóla barna.
VF-myndir/Þorgils Jónsson