Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Átti bara að vera saklaust grín
Hérna má sjá þorrablótsnefndina. Höfundar annálsins voru þeir: Sævar Sævarsson, Guðmundur Steinarsson, Gunnar Stefánsson, Davíð Örn Óskarsson og Garðar Örn Arnarson. Sævar er annar frá hægri.
Þriðjudagur 21. janúar 2014 kl. 12:33

Átti bara að vera saklaust grín

„Við gerum þennan annál þannig að við förum yfir öll tölublöð Víkurfrétta á árinu og finnum þar út það helsta sem er að gerast í bæjarfélaginu. Við reynum svo að krydda það með smá húmor,“ segir Sævar Sævarsson einn höfunda annálsins umtalaða sem sýndur var á Þorrablóti Keflavíkur um síðustu helgi. „Það er aldrei lagt upp með að særa neinn. Við erum ekki að fjalla beint um pólítík né er annálnum ætlað að vera pólitískur á nokkurn hátt, heldur reynum við að gera hnittið efni sem fólk getur hlegið af.“
Hannes Friðriksson var vægast sagt ósáttur við þorrablótsannál Keflavíkur og hefur gefið það út að hann hyggist flytja úr bæjarfélaginu. Í grein sem Hannes birtir á vf.is segist hann vera útmálaður neikvæðasti maður Reykjanesbæjar ásamt Guðbrandi Einarssyni.

Sævar segir að annállinn hafi mælst vel fyrir líkt og í fyrra. „Við erum ekki að þessu til þess að særa nokkurn. Það er það síðasta sem við förum af stað með. Sumt er fyndið eitt og sér og annað þarf aðeins að vinna með. Grínið með Hannes og Guðbrand er hugsað þannig að þarna eru menn sem eru að vinna þarft verk, með því að skrifa greinar sem gagnrýna rekstur bæjarins, auk þess sem þeir benda á ýmislegt sem betur má fara í okkar samfélagi.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sævar segir að eftirtektarvert hafi verið hve Hannes hafi skrifað margar greinar í Víkurfréttir og þó svo margar hverjar þeirra hafi klárlega verið þarfar, hafi þeir sem stóðu að annálnum viljað gera saklaust grín af því.

„Okkur þykir miður að honum hafi sárnað. Ég ítreka að þetta var bara ætlað sem saklaust grín. Ég þekki Hannes bara af góðu einu og þykir margt til hans greina koma. Þetta er síður en svo einhver atlaga að honum. Við vonum svo sannarlega að hann haldi áfram að skrifa greinar í blaðið, það er þörf á manni eins og honum,“ segir Sævar.

Garðar Örn Arnarson var leikstjóri og einn af höfundum annálsins en hann segir að stundum sé dansað á línunni í gríninu en markmiðið sé alls ekki að særa né meiða. „Þetta er nú bara í anda áramótaskaupsins og til gamans gert. Við vonum samt innilega að Hannes flytji nú ekki úr bænum,“ segir leikstjórinn en annálinn umtalaða má sjá hér að neðan. Höfundar annálsins voru þeir: Sævar Sævarsson, Guðmundur Steinarsson, Gunnar Stefánsson, Davíð Örn Óskarsson og Garðar Örn Arnarson.
 

Hér má sjá annálinn frá því á síðasta Þorrablóti en þar má sjá Árna Sigfússon leika stórt hlutverk.

Keflavíkurannáll 2012 from Gardar arnarson on Vimeo.