Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Miðvikudagur 27. mars 2002 kl. 23:26

Átta sjúkraflutningar og eitt brunaútkall á átta tímum!

„Dagurinn er búinn að vera einn af þessum óútreiknanlegu,“ sagði Sigmundur Eyþórsson hjá Brunavörnum Suðurnesja í samtali við Víkurfréttir á netinu í kvöld.„Það hafa verið samfelld útköll sem byrjuðu með sjúkraflutningi til Reykjavíkur klukkan 9:50 í morgun. Síðan um hádegið kom útkall á tvo sjúkrabíla og tækjabíl. Það sem um var að ræða voru tveir samtíma sjúkraflutningar sem voru báðir vegna árekstra“.
Á leiðinni í annað útkallið komu sjúkraflutningamenn að þriðja óhappinu í umferðinni, þar sem vegfarendi hafði ekið yfir umferðareyju og á skilti. Ekki varð ökumanni meint af en ungabarn var í aftursæti og voru ökumaður og ungabarnið hálf skelkuð eftir óhappið. Sjúkraflutningamenn héldu áfram í hið upprunalega útkall sem var flutningur frá Sjúkrahúsi Keflavíkurflugvallar til Landsspítala háskólasjúkrahúss, en þar kenndi ökumaður til í baki og hálsi eftir umferðaróhapp í morgun.
Í hinu tilfellinu á mótum Reykjanesbrautar og Aðalgötu var áreksturinn mjög harður og þurfti klippu og tækjabíl slökkviliðs B.S. til að ná ökumanni, sem var kona, úr bifreiðinni. Eftir skoðun á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja var konan flutt á sjúkrahús í Reykjavík þar sem grunur var um innvortis meiðsl.
„Til viðbótar voru tveir sjúkraflutningar frá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til Reykjavíkur og einn frá Garðvangi á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Dagvaktin endaði síðan með brunaútkalli í Hornbjarg, Kirkjuvegi 1, sem varð vegna eldamennsku, en ekki þurfti að grípa til aðgerða í því tilfelli,“ sagði Sigmundur Eyþórsson slökkviliðsstjóri eftir annasaman dag í vinnunni.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024