Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Átta millj­arða kr. hagn­að­ur hjá Reykja­nes­bæ
Fimmtudagur 26. nóvember 2009 kl. 16:48

Átta millj­arða kr. hagn­að­ur hjá Reykja­nes­bæ

Samkvæmt 10 mánaða árshlutauppgjöri endurskoðunarfyrirtækisins Deloitte á fjárhagsstöðu bæjarsjóðs Reykjanesbæjar 2009, kemur fram rúmlega 8 milljarða kr. hagnaður. Miðað við uppgjör Deloitte, sem gildir tímabilið 1. janúar til 31. október, hækkar eigið fé bæjarsjóðs Reykjanesbæjar úr 2,4 milljörðum kr. árið 2008 í 11,0 milljarða kr. Eiginfjárhlutfall þessa tímabils fer úr 18,44% árið 2008 í 43,09%.


Þessi viðsnúningur í rekstri og efnahag Reykjanesbæjar er, að sögn Árna Sigfússonar bæjarstjóra, vegna viðskipta með hluti í HS hf.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Reykjanesbær keypti meirihluta í HS Veitum og á nú 66,7%. Að auki keypti Reykjanesbær land og auðlindaréttindi undir virkjunum á Reykjanesi. Bærinn seldi 34% eignarhlut sinn í HS Orku hf. Sveitarfélög sem áttu hluti í HS, seldu flest hluti sína 2008 og þannig færðist söluhagnaður þeirra í ársreikning 2008. Í tilviki Reykjanesbæjar tók hann á sig yfir 4 milljarða kr. reiknað tap af HS hf. árið 2008 en fær nú söluhagnað á árinu 2009.

„Við gerum ráð fyrir að hagnaður bæjarsjóðs í árslok verði um 7 milljarðar króna, að teknu tilliti til reiknaðra liða í árslok, skuldbindinga, afskrifta og fjármagnsliða,“ segir Árni í samtali við Víkurfréttir.

Launakostnaður lægstur

„Í gögnum árbókar sveitarfélaga kemur fram að 2008 var launakostnaður vegna þjónustu bæjarstarfsmanna lægstur á íbúa, af 10 stærstu sveitarfélögum landsins. Á sama tíma fékk þjónusta aðra hæstu einkunn. Heildar skatttekjur á íbúa hafa verið þær lægstu á meðal sveitarfélaga á landinu en með nýjum atvinnutækifærum á næsta ári gerum við okkur vonir um að skatttekjurnar styrkist verulega með hærri launum íbúa,“ segir Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar.

Ljósmynd: Oddgeir Karlsson