Átta með þungan bensínfót
Lögreglan á Suðurnesjum hefur á síðustu dögum kært átta ökumenn fyrir of hraðan akstur. Sá sem hraðast ók mældist á 132 kílómetra hraða á Reykjanesbraut, þar sem hámarkshraði er 90 kílómetrar á klukkustund. Þar var á ferð tæplega sextugur ökumaður með þungan bensínfót. Þá voru þrír sektaðir fyrir að leggja bílum sínum ólöglega. Loks voru númer klippt af þremur bifreiðum, sem höfðu ekki verið færðar til skoðunar innan tímamarka eða voru ótryggðar. Ökumaður einnar þessara bifreiða ók undir áhrifum fíkniefna.