Atriði er varða framtíð Paddy's
Um fátt hefur meira verið talað undanfarnar vikur en framtíð hússins að Hafnargötu 38 í Reykjanesbæ. Af því tilefni hefur Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri sett fram nokkur atriði á vefsíðu Reykjanesbæjar til þess að varpa ljósi á málið og skýra hvers vegna bæjaryfirvöld hafa enn ekki tekið ákvörðun í málinu.
Af hverju á Reykjanesbær húsið?
Margir hafa velt því fyrir sér af hverju Reykjanesbær er eigandi hússins. Ástæðan er sú að bærinn keypti húsið fyrir mörgum árum með það í huga að geta fjarlægt húsið en það stendur óvenju nálægt götunni og er að mati margra illa staðsett með tilliti til framtíðarskipulags götunnar. Síðan þessi skoðun var ríkjandi hefur hins vegar margt breyst og nú er ekki talið nauðsynlegt að götur eins og Hafnargatan, sem hýsa verslun og þjónustu í miðbæjum bæja og borga, liggi beinar og breiðar. Nú finnst mörgum þvert á móti að slíkar götur eigi að vera þröngar og hlykkjóttar eins og t.d. gert var vísvitandi við Laugaveginn í síðustu breytingum. Því gæti núverandi staðsetning hússins alveg gengið í framtíðinni og í raun óþarfi að sveitarfélagið eigi húsið áfram.
Hvað ræður úrslitum?
Deiliskipulag er það tól sem sveitarfélög hafa til þess stýra hvers konar starfsemi er heimil á afmörkuðum svæðum innan bæjarmarkanna. Sums staðar er eingöngu heimilt að nýta húsnæði sem íbúðarhúsnæði, sum hverfi eru alfarið ætluð undir atvinnustarfsemi o.s.frv. Deiliskipulag á þessum hluta Hafnargötunnar gerir ráð fyrir blandaðri starfsemi þ.e. verslun, ýmiskonar þjónustu og íbúðarhúsnæði á 2. hæð og ofar. Það er því ekkert sem bannar að þarna sé rekinn pöbb ef starfsemin uppfyllir allar kröfur opinberra eftirlitsstofnana til slíkrar starfsemi s.s. heilbrigðiseftirlits, lögreglu o.fl.
Fjórir valkostir
Húsið að Hafnargötu 38 er að stofninum til meira en 100 ára gamalt og því friðað skv. lögum um minjavernd. Auðvitað hefur ýmislegt verið gert við húsið á undanförnum áratugum en eftir að það náði þessum aldri er bannað að breyta því, rífa eða færa nema með sérstöku leyfi. Reykjanesbær á því fjóra valkosti. Í fyrsta lagi að selja húsið, fyrst það er ekki lengur talið vera fyrir í skipulagslegu tilliti, í öðru lagi að leigja það undir hvers konar starfsemi sem heimil er samkvæmt núgildandi deiliskipulagi, í þriðja lagi að færa það innar í lóðina, nær Suðurgötu, og selja það svo eða leigja, og í fjórða lagi að rífa það eða endurbyggja á einhverjum allt öðrum stað.
Ekki góð reynsla af því að leigja húsið
Í nokkur ár hefur húsið verið leigt mismunandi aðilum undir margs konar veitingastarfsemi á meðan beðið var með að taka ákvarðanir um hvort rétt væri að rífa eða fjarlægja húsið. Því miður verður að segjast að reynslan af því hefur ekki verið góð. Leigutakar hafa því miður ekki alltaf staðið í skilum og nú nemur uppsöfnuð skuld þeirra við Reykjanesbæ nokkrum milljónum króna. Ef þær milljónir fást ekki greiddar mun sú starfsemi, sem verið hefur í húsinu undanfarin ár, í raun verða niðurgreidd af bæjarbúum í formi niðurfellingar útistandandi tekna. Það er auðvitað ekki sanngjarnt, hvorki m.t.t. bæjarbúa né annarra aðila í sömu starfsemi. Hinn möguleikinn er að fara í kostnaðarsamar innheimtuaðgerðir sem óvíst er hvort beri árangur. Réttasta og sanngjarnasta leiðin liggur því ekki í augum uppi.
Best ef allir eru vinir
Mannlíf miðbæjar eins og Hafnargötunnar þrífst á fjölbreyttri starfsemi. Því væri best ef allir rekstraraðilar við götuna bæru gæfu til þess að taka tillit hver til annars og lifa í sátt og samlyndi. Skipulagið gerir amk. ráð fyrir því. Hver niðurstaða Reykjanesbæjar verður á endanum er erfitt að segja á þessari stundu. Gaumgæfa þarf vel alla þessa kosti og taka svo ákvörðun sem er til heilla fyrir sem flesta íbúa og gesti Reykjanesbæjar.