Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Atkvæðagreiðsla um fimm nöfn á nýtt sveitarfélag
Föstudagur 27. apríl 2018 kl. 16:41

Atkvæðagreiðsla um fimm nöfn á nýtt sveitarfélag

Nafnanefnd og undirbúningsstjórn sameiningar sveitarfélaganna Sandgerðisbæjar og Sveitarfélagsins Garðs hefur ákveðið um hvaða fimm nöfn verða greidd atkvæði. Við val á tillögum var ákveðið að nöfn sem hafa tilvísun í eldri heiti sveitarfélaganna komi ekki til álita.
 
Atkvæðagreiðslan verður rafræn og fer fram í byrjun maí. Atkvæðagreiðslan fer fram í tveimur umferðum. Gert er ráð fyrir að fyrri umferð hefjist í fyrstu viku maí og ljúki 11. maí og þá liggi fyrir hvaða tvö nöfn hafa fengið flest atkvæði. Í síðari umferð verður kosið milli þeirra tveggja, og gert ráð fyrir að þeirri atkvæðagreiðslu ljúki 18. maí. 
 
Íbúar hins nýja sveitarfélags fá leiðbeiningar um hvernig rafræna atkvæðagreiðslan fer fram, en til að taka þátt þarf að nota rafræn skilríki eða Íslykil. Íbúar eru því hvattir til að verða sér út um þau hjá sínum viðskiptabanka eða á Ísland.is. 
 
Þau nöfn sem greidd verða atkvæði um eru eftirfarandi. Við hverja tillögu má sjá umsögn Örnefnanefndar, sem hefur lögformlegt hlutverk við val á nöfnum sveitarfélaga. 
 
Heiðarbyggð
Umsögn Örnefnanefndar:
 
Meirihluti Örnefnanefndar leggst ekki gegn nafninu.
Í rökstuðningi nefndar á vegum sveitarfélagsins er vísað til þess að sveitarfélögin sem sameinast liggi við Miðnesheiði. Bent er á að  nafnið hafi tilvísun til heiðarinnar, og saga, atvinna, samgöngur og menning beggja sveitarfélaga sé nátengd heiðinni.
Meirihluti Örnefnanefndar telur að nafnið Heiðarbyggð uppfylli markmið laga um örnefni (nr.22/2015), þar sem talað er um verndun örnefna og nafngiftahefða og kveðið á um að örnefni séu í samræmi við íslenska málfræði og íslenska málvenju, ásamt því að lögð er áhersla á að ný örnefni séu í samræmi við staðhætti og örnefnahefð. Nafnið Heiðarbyggð raskar ekki rótgrónum heitum á svæðinu og skapar því ekki flækjustig varðandi öryggismál.
 
Nesjabyggð
Umsögn Örnefnanefndar:
 
Ekki er lagst gegn nafninu sem þykir þó ekki sérkennandi fyrir þetta byggðarlag fremur en mörg önnur.
Í rökstuðningi nefndar á vegum sveitarfélagsins er vísað til staðsetningar sveitarfélagsins á Suðurnesjum og bent á nafnið Dalabyggð sem hliðstæðu. Örnefnanefnd telur þetta þó ekki sambærilegt að öllu leyti, þar sem „Dalir“ er ævagamalt heiti á héraðinu fyrir botni Breiðafjarðar. Fyrri liðurinn Nesja- er að vísu að sumu leyti lýsandi fyrir staðhætti í sameinuðu sveitarfélagi, en hins vegar verður að telja langsótt að hann sé sérkennandi fyrir þetta sveitarfélag fremur en önnur sveitarfélög í nágrenninu eða annars staðar á landinu. Galli við nafnið er að hætta er á að það skapi rugling við Nesjasveit í Austur-Skaftafellssýslu sem nú tilheyrir Hornafjarðarbæ en var áður Nesjahreppur. 
 
Suðurbyggð
Umsögn Örnefnanefndar:
 
Ekki er lagst gegn nafninu sem þykir þó ekki sérkennandi.
Í rökstuðningi nefndar á vegum sveitarfélagsins er bent á að sveitarfélagið sé á Suðurnesjum og vísað til þess að venja er að tala um að fara suður á nes þegar farið er til Suðurnesja. Hins vegar er ljóst að þessi atriði greina sveitarfélagið ekki frá öðrum sveitarfélögum á Suðurnesjum. Þá verður að telja langsótt að fyrri liðurinn Suður- sé sérkennandi fyrir þetta sveitarfélag fremur en önnur á sunnanverðu landinu. 
 
Útnesjabyggð
Umsögn Örnefnanefndar:
 
Mælt er með nafninu Útnesjabyggð.
Í tillögunni segir m.a. að nafnið vísi til Útskála, Hvalsness og Miðness og bent á að íbúar svæðisins hafi verið kallaðir Útnesjamenn. Einnig segir að samkvæmt málvenju fari menn út á nes eða út í Garð og Sandgerði. Þá kemur fram í tillögunni að nafnið lýsi vel staðsetningu sveitarfélagsins úti á ysta nesi. Nafnið Útnes (eða fyrri liðurinn Útnesja) samræmis staðháttum í sveitarfélaginu, en innan marka þess er að finna útnesin Rosmhvalanes/Miðnes, Hvalsnes og Stafnes, og í sveitarfélaginu eru Útskálar, en við þá er kennd Útskálasókn sem nær yfir stóran hluta sveitarfélagsins. Nafnið er einnig einkennandi fyrir staðsetningu miðað við nágrannasveitarfélög. Reyndar ber við að nafnið Útnes sé notað í sömu merkingu og Suðurnes þegar þetta nafn er notað í þrengri merkingu sem vísun til byggða utarlega á norðanverðum Reykjanesskaga, þ.e. til Reykjanesbæjar auk Sandgerðisbæjar og sveitarfélagsins Garðs. Þetta virðist þó ekki svo rótgróin venja að hægt sé að tala um að sem nýtt stjórnsýsluheiti stangist nafnið á við 2. Lið meginsjónarmiða Örnefnanefndar um nöfn sveitarfélaga. 
 
Ystabyggð
Umsögn Örnefnanefndar:
 
Ekki er lagst gegn nafninu
Í rökstuðningi nefndar á vegum sveitarfélagsins fyrir tillögunni segir að nafnið vísi til þess að sveitarfélagið er yst á Suðurnesjum og Reykjanesskaga. Nafnið er þannig lýsandi fyrir staðhætti á svæðinu og staðsetningu gagnvart nágrannasveitarfélögum. Þessir kostir eru sammerktir nafninu Ystabyggð og nöfnum sem byggja á Útnes, en hins vegar hafa Útnesjanöfn það framyfir þetta nafn að hafa sögulega skírskotun og byggja á málvenju. 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024