Átján útskrifast frá Fisktækniskóla Íslands
Útskrift frá Fisktækniskóla Íslands fór fram föstudaginn 8. desember síðastliðinn í Kvikunni í Grindavík við hátíðlega athöfn. Þetta er í áttunda sinn sem skólinn útskrifar nemendur, en að þessu sinni útskrifaði skólinn tíu gæðastjóra, sex Marel-vinnslutækna og tvo nemendur í fisktækni. Fyrir útskriftina höfðu nemendur í Marel-vinnslutækni fengið sérstaka viðurkenningu frá Marel við hátíðlega athöfn í aðalstöðvum fyrirtækisins í Garðabæ. Þetta er í þriðja sinn sem skólinn útskrifar nemendur af sérbrautum.
Alls hefur skólinn nú útskrifað um hundrað nemendur frá stofnun 2012 og nú eru um 90 nemendur í námi í fisktækni samkvæmt námskrá skólans á fjórum stöðum á landinu.
Innritun í fisktækni og á sérbrautir fyrir gæðastjóra og Marel-vinnslutækna fyrir vorönn 2018 stendur nú yfir og hefst kennsla í byrjun janúar.
Frekari upplýsingar má finna á heimasíðu skólans www.fiskt.is og á Facebook