Átján mánaða gömul börn fái leikskólapláss í Suðurnesjabæ
Inntökualdur barna í leikskólana Gefnarborg og Sólborg í Suðurnesjabæ verður samræmdur í 18 mánaða frá og með ágúst 2019 og mótaðar verði nýjar og samræmdar innritunarreglur fyrir leikskóla í Suðurnesjabæ þar sem m.a. verði ákvæði um aðgengi að leikskólum milli hverfa. Þetta kemur fram í fundargerð bæjarráðs Suðurnesjabæjar, sem hefur samþykkt að unnið verði eftir þeim tillögum sem fram koma í minnisblaði sviðsstjóra fjölskyldusviðs bæjarins.
Þá verði lögð áhersla á að leita leiða til að efla dagforeldraþjónustu í Suðurnesjabæ og horft til þess að húsnæðið Skerjaborg að Stafnesvegi 15 verði nýtt fyrir slíka starfsemi.
Bæjarráð telur rétt að byggður verði nýr leikskóli sem komi í stað leikskólans Sólborgar og svari þörf eftir leikskólaþjónustu í Suðurnesjabæ.
Bæjarráð Suðurnesjabæjar hefur falið bæjarstjóra ásamt sviðsstjóra fjölskyldusviðs og sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs að hefja undirbúning málsins með það að markmiði að hægt verði að taka ákvörðun um framkvæmdir við gerð fjárhagsáætlunar ársins 2020. Jafnframt telur bæjarráð nauðsynlegt að veitt verði fjármagni til hönnunar og undirbúnings framkvæmdarinnar og felur bæjarstjóra að vinna tillögu þess efnis fyrir næsta fund bæjarrráðs.