Átján flugfélög hafa sótt um að fljúga til Keflavíkur 2012
Átján flugfélög hafa sótt um afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli í sumaráætlun 2012. Þar af eru þrjú ný sem ekki hafa áður flogið til Keflavíkur en það eru Easy Jet, Norwegian Air og hið íslenska Wow Air. Flugfélögum sem sækja til Íslands hefur fjölgað mikið á undanförnum árum en lang stærsti aðilinn er þó sem fyrr Icelandair og fyrirtækið hefur boðað frekari umsvif á næstu árum.
Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia segir að flestir þessara aðila hafi flogið til Íslands og oftast nær liggi nokkur vinna að baki því þegar flugfélög ákveða að bæta Íslandi við sem áfangastað. Þar má nefna þátttöku í „Destination Iceland“ með Íslandsstofu og „Ísland allt árið.“ Ísland og Keflavíkurflugvöllur hafa verið kynnt m.a. tvisvar á ári á stórum ráðstefnum flugvalla og flugfélaga þar og áhersla lögð á að fá ný flugfélög til þess að hefja flug til landsins.
Meðal nýrra aðila á síðasta ári var m.a. bandaríska flugfélagið Delta sem flutti um tíu þúsund farþegar sl. sumar og það er í hópi flugfélaga sem verða hér á næsta ári. Delta hafði haft í athugun í nokkur ár að koma til Íslands og sama má segja um Easy Jet sem hefur sitt flug til eldfjallaeyjunnar á næsta ári.
Meðal áhugaverðra breytinga á næsta sumri hjá Icelandair er að bjóða flug erlendis frá til Akureyrar í gegnum Keflavík. Icelandair verður með Fokker flugvél á Keflavíkurflugvelli sem mun fljúga fjórum sinnum í viku til Akureyrar.
Ljóst er þó að stækkun flugvallarmannvirkja er flókið og tímafrekt verkefni sem tekur a.m.k. tvö til þrjú ár að hrinda í framkvæmd. Ekki er nóg að fjölga flugvélastæðum heldur verður jafnhliða að auka alla afkastagetu við flugafgreiðslu í flugstöðinni svo sem innritun og öryggisskimun farþega, flokkun og öryggisskimun farangurs, o.m.fl. sem þarfnast aukins húsrýmis og tækjabúnaðar.“
Allmikilli farþegaaukningu er spáð á næstu árum og hafa eftirfarandi ráðstafanir sem áætlað er að grípa til á komandi sumri verið kynntar flugvallarnotendum. Áætlað er að nota tvö flugvélastæði á flugstöðvarsvæðinu sem notuð eru til afgreiðslu á flutningaflugvélum einnig fyrir farþegaflug og verða þá alls 16 stæði í notkun við flugstöðina. Gerðir verða nýir inngangar á flugstöðvarbygginguna ásamt tilheyrandi biðsölum til afgreiðslu á flugfarþegum sem fluttir verða með rútum til og frá útistæðunum. Notkun útistæða er algeng á sambærilegum flugvöllum í nágrannalöndunum og til lengri tíma litið er unnt að fjölga útistæðum enn frekar.
Undirbúningur fyrir þessar ráðstafanir er kominn vel á veg en endanleg útfærsla liggur þó ekki fyrir.
Eftirtalin flugfélög hafa sótt um afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli í sumaráætlun 2012:
Air Berlin
WOW Air
Air Greenland
Iceland Express
Austrian Airlines
Delta Air Lines
Deutsche Lufthansa
easyJet
Edelweiss Air
Germanwings
Icelandair
Niki Luftfahrt
Norwegian Air Shuttle
Primera Air
Scandinavian Airlines System
Transavia.com
France Travel Service
Vueling Airlines