Athuga með byggingu nýrrar flugstöðvar við Keflavíkurflugvöll
Icelandair Group hefur látið athuga hvort hagkvæmt sé að byggja nýja flugstöð á Keflavíkurflugvelli. Á vef Ríkisútvarpsins er haft eftir Gunnlaugi M. Sigmundssyni, stjórnarformanni Icelandair Group, að íslenska ríkið sé í sinni eigin veröld varðandi verðlagningu á þjónustu í flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Það segir aukinheldur:
Áætlun Icelandair um nýja flugstöð hljóðar uppá fjárfestingu á bilinu 14 til 20 miljarðar. Gunnlaugur segir félagið eitt standa að þessum áformum sem séu á byrjunarstigi. Áætluð flugstöð gæti tekið á móti tveimur og hálfri miljón farþega. Nái nýtt frumvarp um flugvöll fram að ganga, segir Gunnlaugur fyrirsjáanlegt að Icelandair þurfi að sækja um framkvæmdaleyfi til samkeppnisaðilans, flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Hann segir ekki hægt að una háu verðlagi ríkisins á þjónustu í flugstöð Leifs Eiríkssonar. Ferðir fólks verði fyrir vikið allt of dýrar.