Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Atburðarásin nauðsynlegur undanfari eldgoss
Svartsengi. Mynd: Lögreglan á Suðurnesjum
Mánudagur 16. maí 2022 kl. 16:52

Atburðarásin nauðsynlegur undanfari eldgoss

Nærri einn og hálf milljón rúmmetra af kviku hefur safnast upp nokkra kílómetra undir yfirborði vestur af fjallinu Þorbirni. Land hefur risið um 20-30 millimetra og er enn á uppleið. Þetta sýnir nýtt líkan jarðvísindamanna sem gert var í morgun. Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar á Veðurstofunni, segir í samtali við RÚV að þó að þetta sé nauðsynlegur undanfari eldgoss sé óvíst hvort það endi þannig. Kvikusöfnunin er á svipuðum stað og fyrir tveimur árum en að kvikan nú liggi aðeins dýpra en þá.

„Upptökin eru í rauninni þarna fyrir suðvestan Bláa lónið, vestan við Þorbjörn og miðjan er auðvitað aðeins óljós en við erum svona einhverja nokkra kílómetra. Núna höldum við bara áfram að fylgjast með og erum auðvitað að vinna úr þessum skjálftagögnum. Við höfum mælt um 400 skjálfta frá miðnætti og það hefur aðeins dregið úr skjálftavirkninni í rauninni eftir að það voru tveir skjálftar sem mældust þarna klukkan eitt í nótt, 3,1 og 3,2,“ segir Kristín í samtali við RÚV í dag.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Spurð hvað eru miklar líkur á að það fari að gjósa þarna segir hún ekki hægt að segja til um það. Atburðarásin sem á sér stað er nauðsynlegur undanfari eldgoss en kannski ekki nægjanlegur. „Það fer bara eftir magninu sem kemur þarna inn og svona aðstæðum í jarðskorpunni.“