Átak gegn torfæruökutækjum í þéttbýli
Lögregla óskar eftir samvinnu ökumanna
Lögreglan á Suðurnesjum stefnir á átak hvað varðar akstur torfæruökutækja í þéttbýli á næstunni. Lögreglan greinir frá þessu á facebooksíðu sinni en þar segir að mikill hávaði fylgi ökutækjunum sem flest hafa það sameiginlegt að vera númerslaus, en töluvert hefur borið á akstri tví- og fjórhjóla að undanförnu.
„Mikill hávaði fylgir yfirleitt akstri þeirra, sem veldur ómældu ónæði fyrir íbúa hverfa sem þeim er ekið um. Nú í sumarbyrjun ætlum við því að taka alvarlega á þessum málum, ná til þeirra ökumanna sem þetta stunda, ræða við þá og beina þeim á viðurkennd akstursíþróttasvæði.
Lögreglan óskar því eftir samvinnu við íbúa og eru allar ábendingar frá almenningi vel þegnar,“ segir á síðu lögreglunnar. Þar segir einnig að Jóhannes Tryggvi, mótorkrosskappi, hafi óskað eftir því að fá að taka þátt í þessu verkefni með lögreglunni.
„Viljum við benda þeim sem áhuga hafa á mótorkrossi að setja sig í samband við hann. Hann er með aðgang að lokuðu og viðurkenndu svæði, auk þess sem hann býður upp á kennslu á þessi tæki án endurgjalds. Íbúar umdæmisins eru eindregið hvattir til að leggja okkur lið í þessum efnum. Mótorkrossmenn eru jafnframt hvattir til að nýta sé þetta frábæra boð Jóhannesar. Lifum í sátt og samlyndi!“ segir að endingu.